Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:03:57 (2253)

2001-11-29 18:03:57# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um utanríkismál. Hún hefur verið mjög góð og mjög margt hefur komið fram. Mér finnst hafa komið fram að það ríki mikil samstaða um utanríkismálin að langmestu leyti eins og þau blasa við í dag þó að ólíkar áherslur séu um það hvernig menn sjá framtíðina sem er afskaplega eðlilegt. Menn sjá framtíðina misjafnlega fyrir sér, en mikilvægast er að við reynum að sjá hana fyrir þannig að hagsmunum okkar verði sem best borgið þegar næstu ár koma.

Hér hefur verið farið yfir mörg mál. Ég vildi í upphafi gera eitt þeirra að umtalsefni. Það er endurskoðun eða það sem við höfum kallað uppfærsla á EES-samningnum. Ég legg mjög mikið upp úr því í þeim samningi að við fáum bætta stöðu að því er varðar bókun 9. Það hefur komið fram í þessum umræðum og það er ekkert nýtt.

Ég sagði í ræðu minni að menn hefðu gert sér vonir um það strax í upphafi að fá meira út úr bókun 9 en síðan kom í ljós. Það var að einhverju leyti byggt á samtölum sem áttu sér stað en varð aldrei að veruleika. Ég sagði að ég hefði gagnrýnt það á sínum tíma en ég er á engan hátt að halda því fram að þau orð sem féllu á Alþingi um það mál, t.d. að því er varðar síldina, hafi ekki átt sér neina stoð. En það er hins vegar staðreynd að við fengum það ekki út úr bókun 9 á sínum tíma sem menn gerðu sér vonir um. Þannig hefur málið staðið alla tíð síðan og við höfum verið að ræða þetta og reyna að sækja á um það öll þau ár sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið í gildi. Síðast sendum við ásamt Norðmönnum greinargerð til Evrópusambandsins fyrir um það bil tveimur árum um bókun 9. Við fengum viðbrögð frá Evrópusambandinu um bókun 9 og satt best að segja var hún þess eðlis að það var mat okkar að betra væri á því stigi að láta málið niður falla vegna þess að þar komu fram ýmsar kröfur sem við töldum óaðgengilegar og þess vegna væri ekki hægt að halda áfram með málið á þeim grundvelli.

Nú kann vel að fara svo einu sinni enn, sem ég vona þó að verði ekki, að viðbrögð Evrópusambandsins verði með þessum hætti. En núna er enn þá meira í húfi vegna þess að verið er að stækka Evrópusambandið. Við munum að sjálfsögðu líka meta það hvort við getum náð árangri á grundvelli bókunar 6 sem enn þá er í gildi. Mikilvægir hagsmunir Íslendinga eru tryggðir á grundvelli bókunar 6. Þetta hefur verið stefnan alla tíð og ekkert ósamkomulag um það og ég tel rétt að reka málið áfram á þeim grundvelli.

Að því er varðar utanríkisþjónustuna almennt hefur okkur í utanrrn. fundist að ágæt samstaða ríki á Alþingi um mikilvægi utanríkisþjónustunnar og þau verk sem hún er að vinna í öllum meginatriðum. Mér finnst að það hafi komið hér fram í dag. Sá kostnaður sem er af utan ríkisþjónustunni, og þar með talin öll sendiráð, framlag okkar til þróunarhjálpar, hjálparstarfs og friðargæslu, hefur verið um það bil 2% af fjárlögunum, aðeins undir og kannski aðeins yfir núna, sem er um það bil 0,7% af þjóðarframleiðslu. Við skulum vera minnug þess að sum Norðurlandanna eyða meiru en 0,7% af þjóðarframleiðslu aðeins til þróunarhjálpar og við Íslendingar getum ekki talað um að við höfum staðið okkur sérstaklega vel á þeim vettvangi.

Að því er varðar friðargæslu þá er það stefna okkar að auka hlutdeild okkar á því sviði. Ég hef litið svo á að um það sé ágæt samstaða á Alþingi. Það kom t.d. ágætlega fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hversu mikilvægt það starf er og hversu vel okkar fólk hefur staðið sig á þeim vettvangi, t.d. í Kosovo sem ég hef líka haft tækifæri til að kynna mér. Ég tel að þarna höfum við hlutverki að gegna og við eigum að halda áfram að byggja þetta upp. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að gera það fremur hægt, ekki mjög hratt, vegna þess að við þurfum að þjálfa okkar fólk og við þurfum að vera viss um að við séum til gagns. Það sama á við um þróunarhjálpina. Við höfum verið að byggja hana smátt og smátt upp, heldur hægt að mínu mati en þó með þeim hætti að við erum að fara inn á fleiri svið.

Auðvitað verður alltaf einhver ágreiningur um það hvort rétt sé farið með fjármuni. Sendiráð í Japan hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga og undanfarna mánuði, ekki aðeins á Alþingi heldur í þjóðfélaginu. Ég hef verið að lesa þá uppræðu mér til upprifjunar í þessu sambandi vegna þess að mér hefur fundist að við í utanrrn. undir minni forustu höfum farið varlega í þeim efnum. Ég sagði alltaf að því er varðaði sendiráð bæði í Japan og Kanada að ég vildi tryggja að viðkomandi þjóðir opnuðu jafnframt sendiráð hér á landi og það tók langan tíma að fá svar þar um. Það var ekki fyrr en núna á árinu 2001 að við töldum ráðlegt að fara út í þetta.

Það lá alltaf fyrir og samanber m.a. ummæli sem ég viðhafði á árinu 1999 þar sem ég sagði að sendiráð í Japan yrði langdýrasta sendráð okkar, það yrði helmingi dýrara en önnur sendiráð í rekstri og ég sé það á umræðunni að ávallt hef ég verið hvattur af þingmönnum til þess að halda þessu áfram. Þingmenn hafa látið falla hér ýmis ummæli um það, t.d. að þó að kostnaður verði ekki nema tvöfaldur, þó það sé að vísu nokkuð, þá verði víst að hafa það. Þegar ég fer yfir þessa umræðu finnst mér því að ég hafi verið maðurinn sem hefur heldur dregið lappirnar í málinu en hafi legið fremur undir ámælum þingsins fyrir að ganga ekki nógu hratt fram. (ÖS: Þú eyðir ekki nógu miklu.)

Síðan gerist það að farið er vandlega yfir hvort hagkvæmara sé að leigja eða kaupa. Mér fannst það feiknarlega dýrt en sérfræðingar sýndu mér fram á að það væri ódýrara þegar til lengri tíma væri litið. Ég fór með þá útreikninga til utanrrn. og lagði þá þar fyrir, hvorki til samþykktar né synjunar, en utanrmn. var því sammála að menn hlytu að standa þannig að málinu að það yrði sem hagkvæmast til lengri tíma litið. Þetta eru staðreyndir málsins.

Auðvitað geta menn deilt um það hvort Íslendingar eigi að gangast fyrir alþjóðlegum fundum hér á landi eins og fundi Atlantshafsbandalagsins. En það fylgja því skyldur að vera í Atlantshafsbandalaginu. Gerð er sú krafa til þeirra ríkja sem eru að ganga inn að þau eyði um 2--2,5% af þjóðartekjum til varnarmála sem er, ef miðað er við 2%, eins og 15 milljarðar á Ísland. Ekki er gerð sú krafa til okkar og stendur ekki til þannig að við erum í þessum samtökum með mjög sérstökum hætti. En við verðum þarna sem annars staðar að leggja eitthvað af mörkum viljum við vera með. Við verðum að gera okkur grein fyrir því.

Við skulum líka vera minnug þess að þau alþjóðasamtök sem við erum að taka þátt í, hvort sem það er Atlantshafsbandalagið eða önnur samtök, eru að vinna gagn til hjálpar ýmsum sem minna mega sín og mannréttindi eru brotin á í heiminum. Okkur ber að líta ekki eingöngu til þeirra sem eiga við erfiðleika að etja á Íslandi sem eru margir. Við verðum jafnframt sem sjálfstæð þjóð og efnuð þjóð að líta til þeirra sem búa við slæman rétt og slæman kost víða í heiminum. Það getum við best gert með þróunarhjálp. Það getum við best gert með því að taka þátt í friðargæslu. Það getum við líka gert með margvíslegri þátttöku á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og jafnframt með þátttöku á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

[18:15]

Atlantshafsbandalagið hefur verið framvörður lýðræðis í Evrópu. Það er ekki síst vegna Atlantshafsbandalagsins að mörg ríki Mið- og Austur-Evrópu eru að öðlast sjálfstæði, þar sem lýðræði er í hávegum haft og þar sem verið er að byggja upp mannréttindi á við þau sem við höfum notið. Ég tel að það sé skylda okkar að taka þátt í þessu.

Þar að auki skiptir að mínu mati máli að Íslendingar taki þátt í þessu starfi þannig að eftir því sé tekið, að mönnum sé kunnugt að við eigum okkar fulltrúa á erlendri grund, bæði í Bosníu og Kosovo og hugsanlega í framtíðinni í Afganistan. Ég tel að það skipti máli að það sé tekið eftir því að viðkomandi samtök komi jafnframt saman í okkar landi eins og í öðrum löndum, til að minna á að hér býr sjálfstæð fullvalda þjóð sem tekur þátt í þessu starfi. Það vekur athygli á okkur sem þjóð, því sem við erum að gera og þeim möguleikum sem hér gefast.

Það er að mínu mati mikils virði að á komandi vori muni koma hingað fulltrúar fjölmiðla víðs vegar að úr heiminum og tæknimenn þeirra, u.þ.b. 400 manns fyrir utan þá 750 fulltrúa sem gert er ráð fyrir að verði hér á landi. Þessi fundur í Reykjavík næsta vor verður afskaplega mikilvægur. Hann verður afskaplega mikilvægur fyrir framtíð Atlantshafsbandalagsins, stækkun þess, stöðu Eystrasaltsríkjanna, samskipti austurs og vesturs, Rússlands og Bandaríkjanna, og þar eigum við að leggja af mörkum með sama hætti og við gerðum þegar leiðtogafundurinn var haldinn hér 1986.

Auðvitað kostaði mikið að halda þann fund hér á landi. Ég man vel hvernig sú ákvörðun var tekin. Hún var aðeins tekin með 10--14 daga fyrirvara. Þá voru engin fjárlög sem heimiluðu okkur það. Það var hins vegar ákveðið vegna þess að það var talið vera okkur til framdráttar að taka þátt í því og við Íslendingar höfum ávallt verið stoltir af því. Það er vitnað til þess og ég tel að við eigum að halda áfram að vinna með sama hætti.

Að endingu vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir góða og málefnalega umræðu í dag. Það er ánægjulegt til þess að vita að það skuli þrátt fyrir allt vera góð samstaða um meginatriði íslenskrar utanríkisstefnu þó að vissulega hafi menn nokkuð mismunandi sýn til lengri framtíðar, sem er bæði hollt og eðlilegt.