Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:19:07 (2254)

2001-11-29 18:19:07# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst örfá orð um sendiráðið í Japan. Hæstv. utanrrh. segist hafa látið sannfærast af sérfræðingum ráðuneytisins um að nauðsynlegt væri að ráðast í þessa dýru fjárfestingu, upp á 800 millj. kr. held ég að hún sé. Ég velti því fyrir hvort utanrrn. og þess vegna sérfræðingar þess búi ekki við úreltan þankagang í þessum efnum. Ég hefði fyrir mitt leyti alveg fyrirgefið Japönum að reisa sendiráð sitt í Mosfellssveitinni ef það hefði verið ódýrara en í miðbæ Reykjavíkur. Sendiráð er fyrst og fremst starfsstöð, nærvera við landið og stjórnkerfið, án þess að menn þurfi að setja það niður í dýrasta hluta Tókíóborgar í þessu tilviki. Ég trúi ekki öðru en að við hefðum getað leyst þetta mál á ódýrari hátt.

Varðandi Atlantshafsbandalagið, varðandi NATO, þá heyrði ég ekki betur en hæstv. utanrrh. segði, e.t.v. misheyrðist mér, að NATO hefði sérstaklega hjálpað þeim sem minna mættu sín og væri sérstaklega að starfa í þágu þeirra sem minna mættu sín í heiminum. Það getur vel verið að NATO hafi einhvern tíma beitt sér í þágu þeirra sem minna mega sín en NATO er fyrst og fremst hernaðarbandalag ríkustu og öflugustu hervelda heimsins. Atlantshafsbandalagið stendur fyrst og fremst vörð um hagsmuni þeirra.