Samningur um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:36:15 (2262)

2001-11-29 18:36:15# 127. lþ. 40.2 fundur 326. mál: #A samningur um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða sem gerður var í New York 10. júní 1958.

Samningurinn hefur það að meginmarkmiði að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkjanna á gerðardómsúrskurðum þannig að þeir öðlist réttaráhrif og verði fullnægt í samræmi við réttarfarsreglur þar sem fullnustu er leitað. Hann gildir um viðurkenningu og fullnustu gerðardómsúrskurða sem kveðnir eru upp á landsvæði annars ríkis en þess þar sem viðurkenningar þeirra og fullnustu er leitað og til eru komnir vegna ágreinings einstaklinga eða lögaðila. Samningurinn gildir einnig um gerðardómsúrskurði sem ekki eru taldir innlendir í því ríki þar sem leitað er eftir viðurkenningu og fullnustu þeirra.

Vert er að geta þess að í samningnum er heimild fyrir aðildarríki til að lýsa því yfir að þau muni einungis láta samninginn gilda um viðurkenningu og fullnustu gerðardómsúrskurða sem eru kveðnir upp í öðru aðildarríki. Gert er ráð fyrir að slík yfirlýsing verði gefin af Íslands hálfu við aðild að samningnum eins og langflest aðildarríki samningsins hafa gert. Á meðan Ísland hefur ekki gerst aðili að samningnum hefur það í för með sér að engin trygging er fyrir því að gerðardómsúrskurðir kveðnir upp á Íslandi verði viðurkenndir erlendis né heldur að erlendir gerðardómsúrskurðir verði viðurkenndir eða þeim framfylgt hér á landi.

Aukin alþjóðavæðing, fjölbreyttari viðskipti íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og ríkari sóknarfæri erlendra aðila til að stunda viðskipti á Íslandi gera það brýnt að Ísland gerist aðili að New York samningnum.

Hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989. Með því eru sköpuð skilyrði til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verð tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.