Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:46:11 (2267)

2001-11-29 18:46:11# 127. lþ. 40.3 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2002. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni að auðvitað finnst okkur alltaf að okkar hlutur sé rýr í þessu sambandi og hlutur Norðmanna mikill. En ég held að þó verði að draga það fram í þessu samhengi að það er náttúrlega mjög mikilvægt fyrir okkur öll að allir skuli vera komnir að borðinu og sammála að miklu leyti um þá aðferð sem viðhafa skal við stjórn á þessum síldarstofni. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Og ég held, eins og vitnað er til í fylgiskjalinu, að gott sé að formenn sendinefndanna skuli hafa komið sér saman um að leggja þessa tillögu til við yfirvöldin. Það er mjög mikilvægt að Rússar skuli vera komnir algjörlega að þessu máli og að allir séu sammála um að byggja á ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins við þessa vinnu. Eins og fram hefur komið finnst sjálfsagt öllum sinn hlutur vera rýr, en Evrópusambandið fær þarna 71.260 lestir og Færeyingar, frændur okkar, 46.420 lestir, Ísland 132.080, Noregur langstærstan hluta, 484.500 lestir og rússneska sambandsríkið 115.740 lestir.

Það er mjög mikilvægt, eins og kemur fram í II. viðauka, að allir séu sammála um að framkvæma langtímastjórnaráætlun vegna veiðanna og ég held, eins og ég sagði áðan, að við verðum að gleðjast yfir því að á grunni þessa samnings skuli vera hafin svona heildstæð vinna varðandi stjórn á þessum stofni.

Í fskj. IV er vikið að samkomulagi milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 2002. Það er kannski fyrst og fremst þar sem maður hefur vissar áhyggjur. Norðmönnum er heimilað að veiða verulegan hluta innan efnahagslögsögu okkar en auðvitað fáum við þá á móti að við getum veitt mikið í efnahagslögsögu Jan Mayen, en síðan mjög lítið í efnahagslögsögu Noregs hlutfallslega. Ég tel að það sé náttúrlega fyrst og fremst kannski þessi hluti sem við þurfum að lagfæra þegar til lengri tíma er litið vegna þess að við verðum að vona að skilyrðin í sjónum batni þannig að síldin geti gengið lengra vestur á bóginn og þá hafa Norðmenn þarna gríðarlega sterka stöðu á móti verri stöðu okkar að sækja austur, ef svo ber við. Margt bendir reyndar til þess að við getum verið svo bjartsýn að alla vega á næstu árum gangi síldin meira vestur á bóginn. Einhverjar breytingar eru í gangi, eins og hefur komið fram, varðandi aukna ýsuveiði fyrir Norðurlandi þannig að maður hefur nú leyfi til þess að vona það og það væri mikil gæfa ef síldin gæti flust meira vestur á bóginn á sín hefðbundnu mið.

Það er einkum þetta sem ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um, þ.e. hvort við þurfum ekki að ganga á Norðmenn bæði varðandi aukna hlutdeild og líka varðandi tilsvarandi aukin réttindi okkar í fiskveiðilögsögu þeirra því að norskum fiskiskipum er samkvæmt þessu heimilt að veiða 94.200 lestir af síld í efnahagslögsögu Íslands árið 2002.

Um fskj. V varðandi samkomulagið við Rússland þá held ég að mjög mikilvægt sé að hafa gott samkomulag við sambandsríkið Rússland. Það eflir okkur á öðrum sviðum. Það er í sjálfu sér ekki stórmál í þessu samhengi og auðvitað styðjum við öll gagnkvæman rétt Íslendinga og Færeyinga varðandi lögsögurnar þannig að ég geri ekki athugasemdir við þennan samning á neinn hátt. Ég tel að við eigum að samþykkja hann á þessum nótum eða þessa þáltill. En ég er með þessar bollaleggingar um framtíðarsamninga og þreifingar um það hvernig við þróum þetta samstarf, þ.e. að auka hlutdeildina og að Norðmenn gefi okkur þá meira færi, tilsvarandi færi og þeir hafa greinilega fengið til þess að sækja inn í okkar lögsögu, svona til framtíðar litið.