Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:51:31 (2268)

2001-11-29 18:51:31# 127. lþ. 40.3 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Deila má um þennan samning eins og alla aðra samninga og ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson taldi hann svo slæman að hann greiddi atkvæði á móti honum. Hann lét hann ekki afskiptalausan. Hann taldi hann svo slæman að hann var alfarið á móti honum og ég man vel eftir þeirri umræðu þegar þessi mál voru rædd hér á Alþingi. (ÖS: Ég ... síðan.) Já, sem betur fer. Menn þroskast og það er vel. Það gerum við öll.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi samningur hafi verið afskaplega mikilvægur. Ég ætla ekkert að segja hvort hann hefur verið góður eða slæmur í tölum talið. Auðvitað hefði ég viljað sjá stærri hlutdeild Íslands í þessu samhengi. En það skipti gríðarlegu máli að á því augnabliki sem samningurinn var gerður náðist samkomulag um heildarveiðina úr þessum stofni sem stundum hefur verið of mikil á undanförnum árum.

Við höfum lagt á það megináherslu að minnka veiðina. Og nú hefur tekist að fara að tillögum vísindamanna og þar með gera menn sér vonir um að á næstu árum geti veiðin komist upp í 1 milljón til 1.200 þúsund tonn.

Það hafa hins vegar verið vonbrigði að síldin hefur ekki gengið inn í íslenska lögsögu. Hún heldur sig mun norðar en hún gerði áður og það hefur takmarkað möguleika skipa okkar. Það vantaði tugi þúsunda tonna upp á að við næðum okkar hlut á síðasta fiskveiðiári eða síðasta sumri. Samningsaðilar okkar hafa að sjálfsögðu tekið eftir þessu og sækja nú mjög á um að okkar hlutur verði minnkaður. Síðasta samningalota var mjög erfið. Ef hv. þm. les um það í norskum blöðum þá getur hann fengið staðfestingu á óánægju hagsmunaaðila í Noregi með niðurstöðu samningsins. Við teljum hins vegar að með þessum kröfum séu Norðmenn að sýna mikil skammtímasjónarmið og hafi gleymt því hver sé grundvöllur þessa samnings. En við skulum líka hafa í huga að við veiddum ekkert úr þessum síldarstofni í marga áratugi og þess vegna er hér um gífurlega stórt hagsmunamál að ræða.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að heimildir okkar til að veiða í norskri lögsögu eru afar litlar. Það má kannski til sanns vegar færa að við lögðum ekkert sérstaklega mikið upp úr því á sínum tíma, og það má gagnrýna það, hvorki íslensk stjórnvöld og þá sérstaklega ekki íslenskir útvegsmenn. Þeir gáfu ekkert fyrir það. Nú hafa þeir að vísu skipt um skoðun og leggja mikið upp úr því að breyta því og hafa orðið talsmenn þess að þessi samningur hafi upphaflega verið mjög góður þó að þeir hafi lagst gegn honum á sínum tíma. Þeir leggja nú mikið upp úr því að þessari síld verði úthlutað varanlega, sem er annað mál.

En það sem við lögðum hins vegar mest upp úr var að veiða minna, vinna þannig að málinu að síldarstofninn yrði byggður upp og hann yrði það sterkur að hann gengi aftur inn í íslenska lögsögu og við fengjum eitthvað svipað munstur og við vorum vön hér fyrr á árum, sem við munum eftir sem unglingar. Við munum eftir hversu mikilvægt það var fyrir sérstaklega Norðurland og Austurland, síldin var uppistaða atvinnulífs í þessum byggðum yfir sumarið. Þetta munstur hefur allt saman horfið úr íslensku samfélagi, sem menn sakna, og þetta skiptir Íslendinga mjög miklu máli.

Þess má geta í þessu samhengi að ég harma það ekkert sérstaklega þó að vantað hafi tugi þúsunda tonna upp á það að Íslendingar næðu sínum kvóta á síðasta sumri vegna þess að sú síld hefur þá fengið að lifa og hún mun ekki hverfa og hún mun þá leggja sitt af mörkum til þess að byggja stofninn enn betur upp og ég held að það sé af hinu góða. Það er sjónarmið sem við höfum fært fram í þessum viðræðum að við leggjum ekki allt upp úr því að ná öllu vegna þess að við leggjum mest upp úr því að byggja stofninn upp og vildum í reynd frekar minnka veiðina frá þessu heldur en hitt. Þetta hefur verið stefna okkar og vegna þess að þetta var stefna okkar lögðum við kannski ekki nægilega áherslu á að fá réttindi til veiða í norskri lögsögu þannig að gagnrýni í þá átt á samninginn er réttmæt.