Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:06:45 (2274)

2001-12-03 15:06:45# 127. lþ. 41.91 fundur 188#B alþjóðlegur dagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er við hæfi að vekja athygli á stöðu fatlaðra og vanefndum ríkisstjórnarinnar í málaflokknum nú í dag, 3. desember, á alþjóðabaráttudegi fatlaðra. Ég verð að segja að það var ekki mikið um svör frá hæstv. ráðherra hér á undan. Á þriðja hundrað fatlaðra bíða eftir búsetu í Reykjavík og á Reykjanesi og það er löng bið eftir þjónustu- og skammtímavistun. Það er líka margra mánaða bið eftir greiningu hjá Greiningarstöð ríkisins, eins og menn vita.

Hæstv. ráðherra talar um að biðlistanefndin hafi talað um að leysa þennan vanda á næstu fimm árum. Þess sér ekki stað í frv. hæstv. ríkisstjórnar. Það er verið að gefa loforð langt fram í tímann, svo langt að það er ekki öruggt að hæstv. ráðherra verði hér til að efna þessi loforð.

Það verður að segjast eins og er, að fjárlagafrv. er áfall fyrir fatlaða og foreldra þeirra. Álagið og óvissan er að sliga þessa foreldra. Hæstv. ráðherra gaf loforð um úrbætur í skammtímavistun en þau hafa öll verið svikin. Það er löng bið og langir biðlistar. En skammtímavistunin er forsenda þess að foreldrar geti haft börn sín heima. Ef þeir gefast upp verður það mjög dýrt og mun dýrara fyrir ríkissjóð.

Biðlistanefndin talaði um að leysa þennan vanda á fimm árum með ákveðnum fjárhæðum. Auðvitað verður hluti þeirra að koma fram í fjárlögunum núna. Það ber að standa við þau loforð sem gefin hafa verið og það verður að segjast hér, herra forseti, að frammistaða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í málefnum fatlaðra er til skammar.