Úrskurður forseta

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:28:05 (2285)

2001-12-03 15:28:05# 127. lþ. 41.93 fundur 190#B úrskurður forseta# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir furðu minni á þessum úrskurði forseta og vek sérstaklega athygli þingheims á því að á þeim tímum sem hugtök eins og gegnsæi í stjórnsýslu, mikilvægi þess að farið sé með opinbert vald á opinskáan hátt, að upplýsingar liggi fyrir um það hvernig farið sé með opinbert fé og hvernig farið sé með opinbert vald, þá er hæstv. forseti Alþingis Íslendinga að taka undir með framkvæmdarvaldinu um að það sé einkamálefni þeirra sem versla við ríkið, og fá væntanlega greitt af opinberu fé, í hvað þeir fjármunir fara og hversu mikið sé greitt til hvers aðila.

Herra forseti. Ég mótmæli þessari túlkun hæstv. forseta og lýsi yfir furðu minni. Ég tel að hér sé mjög alvarlegt mál á ferðinni. Látum vera, herra forseti, að höfuð framkvæmdarvaldsins, forsrh., úrskurði í þessa veru og telji þetta sína skoðun en að hæstv. forseti Alþingis skuli ekki standa vörð um hagsmuni Alþingis og um hagsmuni alþingismanna og gera þeim þannig kleift að framfylgja eftirlitshlutverki sínu með því hvernig farið er með opinbert fé, það tel ég vera mjög alvarlegt mál, herra forseti.