Úrskurður forseta

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:32:18 (2288)

2001-12-03 15:32:18# 127. lþ. 41.93 fundur 190#B úrskurður forseta# (um fundarstjórn), EMS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er nauðsynlegt skýra málið vegna þeirra orða sem hæstv. forseti lét falla hér áðan, um að ég hefði ekki tekið til máls þegar hann kynnti mig fyrst í ræðustól. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hef vanist þeim hefðum hér að þegar tvö mál eru tekin fyrir undir liðnum um störf þingsins þá sé fyrra málinu lokið áður en hið seinna er tekið á dagskrá.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að störf þingsins voru til umræðu en ekki tvö mál. Ég kannast ekki við að hafa gefið út slíka dagskrá.)

Það er þá hugsanlega skýringin á því að hæstv. forseti kynnti þetta á þennan hátt. Hins vegar hafði verið frá því gengið, að því er ég taldi, að hér yrðu tvö mál á dagskrá og þess vegna yrði fyrra málinu lokið af og síðan hinu seinna, eins og komið hefur fram og hæstv. forseti hefur væntanlega orðið var við, að um tvö mál hafi verið að ræða.

Hins vegar er nauðsynlegt, vegna úrskurðar hæstv. forseta, að vekja athygli hæstv. forseta á því að forsn. setti reglur hinn 5. des. 1994 á grundvelli 28. gr. laga um þingsköp. Það er nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að kynna sér þessar reglur vandlega og íhuga hvort úrskurður sá sem hæstv. forseti gaf hér áðan standist þær reglur sem þá voru settar.

Áður en sá úrskurður liggur fyrir og áður en hæstv. þingforseti hefur fengið tíma til að kynna sér þessar reglur nákvæmlega tel ég nauðsynlegt að bíða með frekari framgang þessa máls. En ef úrskurður hæstv. forseta verður eins og hann var hér áðan tel ég nauðsynlegt að óska eftir aukafundi í fjárln. og láta á það reyna hvort hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður fjárln., muni ekki gefa færi á að enn verði leitað eftir því að þær upplýsingar sem um er beðið komi fram frá forsrn.