Samningur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um málefni fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:37:45 (2291)

2001-12-03 15:37:45# 127. lþ. 41.1 fundur 180#B samningur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um málefni fatlaðra# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Því miður er þessi samningur ekki undirritaður. En það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að uppkast hans hefur legið fyrir síðan í sumar. Í honum er ákvæði um að flutningi fatlaðra verði lokið 1. jan. 2003. Skipting söluandvirðis blokkarinnar sem liggur til grundvallar flutningnum liggur fyrir. Félmrn. fær 2/3 af söluandvirðinu og heilbrrn. afganginn til að sjá fyrir framheilasköðuðum börnum sem eru á vegum heilbrrn.

Það sem hefur tafið málið er að það er ekki fyrir því séð enn þá í fjárveitingu til félmrn. að þessi flutningur geti farið fram. Enn hefur ekki verið séð fyrir fjármunum til þess og það er verið að vinna í því. Ég vona að við getum undirritað þennan samning mjög fljótlega því satt að segja hefur undirritun hans dregist miklu lengur en ég vildi.

Ég hef mikinn vilja til þess og við höfum verið að ræða það, bæði ég og félmrh., hvernig hægt er að tryggja framkvæmd samningsins. Ég vil ógjarnan undirrita hann nema tryggt sé að hægt sé að standa við hann. Við höfum verið að skoða það.