Samningur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um málefni fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:39:38 (2292)

2001-12-03 15:39:38# 127. lþ. 41.1 fundur 180#B samningur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um málefni fatlaðra# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er alveg rétt að það hefur dregist úr hömlu að ganga frá þessum samningi. En ég veit að hæstv. ráðherra er ábyrgur maður og vill hafa fjárveitingu fyrir þessum flutningi áður en hann undirritar plaggið.

Ég hefði hins vegar talið, miðað við þau gæluverkefni sem er að finna í fjárlagafrv., að hægt hefði verið að hliðra eitthvað til þannig að sjá mætti til þess að sá hópur fatlaðra sem hér er til umræðu fái viðunandi þjónustu. Ég minnist þess að þær eru þó nokkuð margar milljónirnar til hrossaræktar og slíkra gæluverkefna ríkisstjórnarinnar. Þær væru betur komnar hjá þessu fólki sem hefur nánast alltaf fengið óviðunandi þjónustu.

Ég spyr því hæstv. ráðherra, sem segir að þessi samningur verði undirritaður á næstunni: Hvenær hyggst hann gera það? Verður það gert áður en fjárlagaumræðunni lýkur í lok þessarar viku?