Reikningsskil sveitarfélaga

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:46:36 (2298)

2001-12-03 15:46:36# 127. lþ. 41.1 fundur 182#B reikningsskil sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er mikilvægt í opinberri stjórnsýslu, hvort heldur það er á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga, að öllum fjárhagsskuldbindingum sé vel til haga haldið. Undir þeim formerkjum vil ég vekja athygli á að nokkuð hefur verið laust í reipunum af hálfu félmrn. og annarra þeirra aðila sem um málefni sveitarfélaganna véla hvernig fara skuli með skuldbindingar sveitarfélaga er varða eignarleigusamninga svokallaða og rekstrarleigusamninga.

Hins vegar er fyrirliggjandi að nokkur sveitarfélög hafa á síðari árum fjárfest svo milljörðum skiptir eða skuldbundið sig svo milljörðum skiptir undir þeim formerkjum. Félmrn. og reikningsskilanefnd ráðuneytisins hafa ekki verið í stakk búin fram að þessu að svara því fyrir fullt og fast hvernig með skuli fara og ýmis sveitarfélög hafa freistað þess að halda slíkum skuldbindingum til hlés og undir borðum, með öðrum orðum hafa ekki fært það til bókar, hvorki í ársreikningum né í fjárhagsáætlunum.

Nýverið, að gefnu tilefni, svaraði ráðuneytið bæjarfulltrúum í Hafnarfirði þess efnis að ekki væri kveðið á um það svo skýrt væri að sveitarfélögum bæri að færa skuldbindingar af þessum toga í ársreikninga. Var því m.a. haldið fram að skólahúsnæði og leikskólahúsnæði væri ekki svo sérhæft að það félli undir alþjóðaskilgreiningar í þessa veru, það mætti með öðrum orðum nota skóla og leikskóla sem sumarhótel yfir sumarmánuðina. Það var hin dapurlega skýring á þessu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra þráðbeint hvort hann standi við þetta álit reikningsskilanefndar, hversu fráleitt og kjánalegt sem það nú annars er.