Málefni hælisleitandi flóttamanna

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:59:46 (2309)

2001-12-03 15:59:46# 127. lþ. 41.1 fundur 183#B málefni hælisleitandi flóttamanna# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Já, ég þekki málefni félmrn. Ég þekki lög um félagsþjónustu. Ég þekki lög um hvað félmrn. á að halda utan um. Ég veit líka að stundum axlar maður ábyrgð þó einhver lög nái ekki yfir það. Það er það sem ég er að benda á. Heilbrrn. ber ekki ábyrgð á þessum börnum sem ég var að vekja athygli á. Félmrn. ber ekki ábyrgð. Menntmrn. ber alls ekki ábyrgð. Ég hélt satt að segja að meira samráð væri á milli ráðuneytanna heldur en raun ber vitni þegar fólk væri þátttakendur í samfélagi okkar. Ég hélt ekki að þetta fólk væri í þrjá mánuði eingöngu upp á Rauða krossinn komið. Ég hélt ekki að það væri þannig að ráðuneytið skipti sér ekki af. Ég geri mér alveg grein fyrir því að dómsmrn. heldur um hælisleitandi flóttamenn, enda hef ég mörgum sinnum, árum saman kallað eftir úrbótum í þeim málaflokki. En það sem ég vissi ekki var að ef einhver liggur utan við lagaramma í íslensku samfélagi, þá lætur íslenskt samfélag þann einstakling eiga sig. Þá er einhver annar sem ber ábyrgð. Og að sjálfsögðu, herra forseti, hafði ég velt því fyrir mér að beina spurningu til hæstv. menntmrh. en þetta mál fannst mér stærra en svo að það snerist eingöngu að menntun þessara ungu barna.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að svarið sem ég fékk hér í dag olli mér miklum vonbrigðum.