Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:56:44 (2319)

2001-12-03 16:56:44# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það þjóni nokkrum tilgangi að halda þessari orðræðu áfram. En ég skal tala hægt og skal reyna að tala skýrt.

Það var einfaldlega þannig að þess var farið á leit í fjárln. að fá upplýsingar, eðlilegar upplýsingar um hvernig fé ríkisins var varið. Þessu var neitað. Hæstv. forseti tók undir það og niðurstaðan er sú, eftir þennan úrskurð, að hv. alþingismenn eigi ekki rétt á að fá þær upplýsingar nema sem þeim er skammtað úr hnefa. Og það er þessi efnislega niðurstaða sem er algerlega fráleit. Þetta hefur komið fram hér í ræðum mínum. Þetta hefur komið fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og þetta kom fram í öllum þeim ræðum sem fluttar voru hér um þetta mál fyrr í dag.

Ég veit því ekki, virðulegi forseti, hvort það þjóni yfir höfuð nokkrum tilgangi að ræða við hæstv. forseta. Hann virðist bara heyra það sem hann vill heyra og skilja það sem hann vill skilja, enda bar úrskurður hæstv. forseta þess ræk vitni að honum var alveg sama hvað hann sagði, nákvæmlega sama hvað hann sagði, enda fór hann slíka fjallabaksleið í rökstuðningi að þetta verður sennilega frægt að endemum.

Líklega má þá túlka niðurstöðuna þannig að þeim einum sé treystandi sem sitja í utanrmn. af því að þeir heyra undir einhvers konar þagnareið. Líklega var það það sem hæstv. forseti átti við hér fyrr í dag.

En það liggur fyrir, virðulegi forseti, að eftir úrskurð hæstv. forseta í dag verður þrautin þyngri að fá nokkrar upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu. Þeir hafa fengið öflugan talsmann í lið með sér til að þeir geti svarað eins og þeim sýnist, þeir geti túlkað hlutina eins og þeim sýnist og fært allt undir einkamálefni og fjárhagsmálefni sem eru viðkvæm.

Virðulegi forseti. Það er niðurstaða dagsins í dag.