Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:16:35 (2323)

2001-12-03 17:16:35# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Ég held að mikilvægt sé að við víkjum ekki af þeirri leið sem mörkuð hefur verið með setningu laga um umboðsmann Alþingis, upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Ég tek undir það með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni í þessum efnum.

Ég bendi á að umboðsmaður Alþingis getur krafið stjórnvöld um hvers konar upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfsins --- við skulum halda þessu til haga --- þar á meðal um hvers konar skýrslur, skjöl, bókanir og önnur gögn. Hann getur og kvatt starfsmenn í stjórnsýslunni á sinn fund til að gefa munnlegar upplýsingar og skýringar. Við skulum líka halda þessu vel til haga.

Enn fremur á umboðsmaður frjálsan aðgang að starfsstöðum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns. Og loks getur umboðsmaður óskað eftir því við héraðsdómara að hann taki af mönnum skýrslu um atvik sem máli skipta að dómi umboðsmanns. Við skulum halda þessu öllu til haga.

Það er óumdeilt að umboðsmaður hefur þennan rétt og hann hefur í störfum sínum notað þessi tæki, þennan rétt, til að krefja stjórnvöld um upplýsingar. Í einhverjum tilvikum kann að hafa reynst torvelt að fá þessar upplýsingar, en þar sem þessi réttur er ótvíræður og skýr skulum við ekki vera með neinar vífilengjur eða varpa efa á þennan rétt eða gefa okkur það og gefa í skyn að stjórnvöld starfi í þeim anda að þau vilji torvelda skýra stjórnsýslu. Það er þvert á móti. Alþingi setti lög um stjórnsýslu og upplýsingalög í stjórnartíð Davíðs Oddssonar.

(Forseti (ÍGP): Forseti vil minna hv. þingmenn á að ávarpa forseta í upphafi ræðu.)