Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:19:01 (2325)

2001-12-03 17:19:01# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem ég vildi bæta við um skýrslu umboðsmanns Alþingis er það sem ég hygg að hafi oft áður borið á góma þegar menn hafa fjallað um þær skýrslur hér á hinu háa Alþingi, þ.e. spurningin um hvernig Alþingi ætli fyrir sitt leyti að fjalla um skýrslurnar, meðhöndla þær og fylgja þeim eftir. Þá hefur oft komið upp sú hugmynd, og ég er stuðningsmaður hennar, að hér yrði kosin sérnefnd, eða að sérstök nefnd á vegum Alþingis hefði það hlutverk að taka til umfjöllunar skýrslur umboðsmanns, eftir atvikum einnig skýrslur Ríkisendurskoðunar og mögulega fleiri sambærilega þætti sem lúta að starfsskilyrðum stjórnvalda, framkvæmd stjórnsýslunnar og samskiptum borgara og stjórnvalda, og eftir atvikum leggja til við þingið hvernig álitunum yrði fylgt eftir, hvernig væri kerfisbundið og reglubundið farið yfir það að brugðist væri við úrskurðum o.s.frv.

Oft lúta þessir úrskurðir að hlutum sem betur mega fara í sambandi við ýmis framkvæmdaleg atriði eða reglubundin atriði eins og stjórnskipulega stöðu reglugerða eða annað því um líkt. Þá er náttúrlega mikilvægt til að þetta starf skili sem mestum árangri að úrskurðirnir séu teknir alvarlega og við þeim brugðist.

Ég minni á þessa hugmynd, herra forseti, og ég tel að hún eigi að vera til umfjöllunar jafnt því sem menn ræða þessa skýrslu eða aðrar slíkar og velta því fyrir sér í framtíðinni hvernig best verði búið um þessa þætti. Eins og önnur þingskjöl gengju þessar skýrslur þá til nefndar, fengju þar formlega umsögn, þar væri skilað nefndaráliti og eftir atvikum gætu þá fylgt tillögur í kjölfarið um viðbrögð ef efni stæðu til.

Hæstv. forseti Alþingis vék að mér í andsvari áðan og taldi ekki hafa komið fram hvað ég var ósáttur við í þeirri yfirlýsingu sem hann gaf hér af forsetastóli í umræðum um störf þingsins fyrr í dag. Það kemur mér afar mikið á óvart ef það getur hafa farið fram hjá hæstv. forseta að ég, eins og margir fleiri þingmenn, var forundrandi og hneykslaður á þeirri afstöðu sem hæstv. forseti tók þar, sem sagt að ganga í lið með framkvæmdarvaldinu, þessum embættismanni framkvæmdarvaldsins sem sendi fjárln. Alþingis það snubbótta svar að henni kæmi það ekki við hvernig forsrn. hygðist ráðstafa eða hefði þegar ráðstafað 300 millj. kr. af opinberu fé sem ekki einu sinni voru á fjárlögum.

Það er rétt að rifja það upp, herra forseti, og draga athyglina að þeirri staðreynd að ósvífnin er nú sem þessu nemur meiri hjá forsrn. að hér er ekki verið að tala um ráðstöfun fjármuna sem Alþingi hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti. Nei, forsrn. fer fram á aukafjárveitingu upp á 300 millj. kr. og hún er sett inn á fjáraukalög hér í haust. Guð má vita hversu miklu af þessum peningum er þegar búið að ráðstafa án þess að heimildir séu fyrir.

En svo sendir þessi embættismaður forsrn. það svar þegar fjárln. vill fá að vita hvernig eigi að ráðstafa þessum fjármunum áður en fjáraukalögin eru afgreidd: ,,Það kemur ykkur ekki við.`` Hvernig á Alþingi að bregðast við?

Nærtækt væri að leggja það til að Alþingi reiddi ekki fram féð, að forsrn. fái ekki krónu fyrr en skýringarnar liggja fyrir. Ætla menn að láta bjóða sér þá framkomu að eitt stykki embættismaður í forsrn. sendi fjárln. Alþingis þetta snubbótta svar í tölvupósti? Þetta er ekki ráðuneytisbréf. Þetta er ekki ,,f.h.r.``-bréf, þaðan af síður undirritað af ráðherra sjálfum. Þetta er tölvupóstur, tölvupóstur frá einum embættismanni: Það kemur ekki við í fjárln. Alþingis hvernig við ætlum að ráðskast með litlar 300 millj. kr. Það slagar upp í NATO-fundinn. Þá eru þeir á lausu, peningarnir, þegar í hlut eiga gæluverkefnin, einkavæðingargæluverkefnin eða NATO-fundirnir.

Förum aðeins yfir þetta mál, herra forseti, um hvað það snýst og hver helstu atriðin í þessu máli eru.

Þau eru í fyrsta lagi að forsrn. hefur greinilega vanmetið svo kostnaðinn af einkavæðingarbröltinu að það þarf að biðja um 300 millj. í aukafjárveitingu á haustdögum.

Fjárln. Alþingis segir: ,,Heyrðu, við viljum fá skýringar á því hvernig á að ráðstafa þessum fjármunum.`` Eða þeim hefur e.t.v. þegar verið ráðstafað.

Þriðja: Embættismaður í forsrn. sendir tölvupóst. Að vísu er netfang hér. En þetta er ekki á bréfhaus forsrn. og þetta er ekki ,,f.h.r.``og þetta er ekki ,,kántersignerað``. Nei, þessi kveðja berst frá framkvæmdarvaldinu í tölvupósti, undirrituðum af einum embættismanni.

Svo er það upplýst og því hefur ekki verið mótmælt að hann er ekki hlutlausari en það, þessi dómari framkvæmdarvaldsins, að hann er jafnframt starfsmaður sömu einkavæðingarnefndar og fer með hlutina. Þannig er þetta vaxið.

Og hver er röksemdafærslan? Hún er sú að það kunni að vera einhverjir einkahagsmunir einhverra fyrirtækja sem hafi fengið borgað þarna af opinberu fé og þess vegna sé í krafti uppýsingalaga ákveðið að hafna erindinu, hafna þessari beiðni fjárln. um upplýsingar, sundurliðun á ráðstöfun opinberra fjármuna.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti. Ég hef aldrei heyrt annað eins.

Hvar heldur framkvæmdarvaldið að það sé statt? Það sendir orðsendingar til Alþingis, fjárveitingavaldsins, löggjafarvaldsins: Við viljum fá litlar 300 millj. hérna aukalega til að sinna þessu gæluverkefni okkar, en ykkur kemur ekki við hvernig við ætlum að nota þær. Það er okkar einkamál hérna.

Hafa þessir menn fengið veiðileyfi á ríkissjóð? Mega þeir fara með skóflur í ríkisfjárhirslurnar og moka út peningum til þeirra sem þeim sýnist án þess að standa nokkrum reikningsskap gerða sinna í þeim efnum?

Þetta er að því leyti algjörlega biluð röksemdafærsla, herra forseti, að í fyrsta lagi taka upplýsingalög ekki til Alþingis. Það er skýrt. Í öðru lagi er réttur alþingismanna og Alþingis til upplýsinga, ég tala nú ekki um um svona opinber mál, ríkari en almennra borgara. Annars væri engin ástæða til þessarar aðgreiningar. Hann er ríkari og það sést á því að Alþingi heyrir ekki undir upplýsingalög og hann er ríkari vegna þess að hann er í stjórnarskránni. Og hann er í mörgum öðrum lagaákvæðum, þar á meðal um fjárreiður ríkisins og um eftirlit með fjármunum ríkisins. Hann er í þingsköpunum og víðar.

Hér er á ferðinni ráðstöfun opinberra fjármuna og spurning um eftirlit með því hvernig þeim er eytt.

Það er alls konar áskilnaður hér helgaður af hefðum og venjum, t.d. um að þeir, m.a. einkaaðilar, sem fá opinberan fjárstuðning skuli gera grein fyrir honum. Ég nefni þá sem hljóta fjárveitingar af safnliðum sem annaðhvort Alþingi eða ráðuneyti skipta. Getur það ekki varðað viðskiptahagsmuni eða einkamál hvernig fjármunum þessara aðila er háttað? Jú, en þeir gangast undir það, um leið og þeir þiggja hina opinberu fjármuni, að veita upplýsingar um hvernig þeim var ráðstafað.

Auðvitað vita fyrirtæki að þeim er greitt með opinberum peningum ef þau taka að sér opinber verk og þar með er það ekki lengur viðskiptaleyndarmál. Hvar í ósköpunum enda menn ef þeir halda áfram á þessari braut? Menn enda þannig að ekki má greina frá neinu um ráðstöfun vegafjár eða framkvæmda á vegum ríkisins af því að það gæti varðað viðskiptahagsmuni og heila eftirlitskerfið með því hvernig útgjöldum ríkisins er varið hrynur. Og hafa nýleg og sorgleg dæmi sem ættu m.a. að vera vel kunn forseta þingsins, sem er sjálfstæðismaður, sýnt okkur að ekki er alltaf vanþörf á að halda uppi virku eftirliti með hlutunum.

Í fjórða lagi, herra forseti, eru þetta opinber mál sem ekki eiga að varða trúnað, þannig að þá þegar er málið afgreitt. En það kostulegasta er eftir. Væri eitthvert hald í röksemdunum um að þarna sé um viðkvæmar upplýsingar að ræða er ekkert vandamál að bregðast við því og í gildi eru staðfestar starfsreglur um það hvernig þingnefndir Alþingis fara þá með málin. Veit virðulegur forseti þingsins ekki af því að 1994 voru mótaðar reglur um trúnaðarupplýsingar sem nefndum þingsins berast iðulega og hvernig með þær skuli farið, t.d. hverjir aðrir en þingmenn eigi þá að hafa aðgang að þeim upplýsingum og hvernig þær skuli geymdar í vörslu þingsins?

Ég ætla að nefna nokkur dæmi um viðkvæmar trúnaðarupplýsingar sem mismunandi þingnefndir hafa fengið í sínar hendur á undanförnum árum og mér hefur aldrei verið sýnt fram á eitt einasta dæmi um að slíkur trúnaður hafi ekki verið virtur. Ég man aldrei eftir því að ásakanir hafi komið upp um slíkt:

Í fyrsta lagi vil ég nefna þegar iðnn. þingsins fékk sem trúnaðarupplýsingar, einhverjar heitustu upplýsingar sem þá voru til í þjóðfélaginu á sínum tíma, raforkuverðið til stóriðju í nýjum samningum. Það var mjög heitt og umdeilt mál sem rætt var hér á þingi dögum oftar. Iðnn. þingsins meðtók sem trúnaðarupplýsingar raforkuverðstölurnar sjálfar. Þær voru ekki að öðru leyti afhentar og aldrei gerðar opinberar. Í öllum hinum heitu pólitísku umræðum sem urðu um stóriðjumálin héldu allir trúnað um það hvert nákvæmlega raforkuverðið var.

[17:30]

Í öðru lagi fékk félmn. frá lögreglustjóra og fleiri yfirmönnum löggæslu í landinu mjög viðkvæmar og vandmeðfarnar upplýsingar úr undirheimum Reykjavíkurborgar, þegar til umræðu voru vændi og fleiri undirheimamál. Að sjálfsögðu var ekki við hæfi og á engan hátt leyfilegt að greina frá þeim hér úr ræðustóli og það gerði enginn maður. Það nægði að taka fram, minna þingmenn á og vekja athygli á því að auðvitað væri hér um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða sem rétt væri að meðhöndla sem slíkar og það gerðu að sjálfsögðu allir.

Í þriðja lagi hefur efh.- og viðskn. ítrekað, á þeim tæpu tíu árum sem ég sat í þeirri nefnd, fengið viðkvæm viðskiptaleg mál í sínar hendur. Ég nefni t.d. þegar þar var afgreidd aðstoð við Landsbanka Íslands og nefndarmenn fóru rækilega ofan í saumana á því hvernig fyrirtækið stæði og fengu margvíslegar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um stöðu þess fyrirtækis, áhættusöm útlán, hvað gæti tapast á næstu mánuðum o.s.frv. Að sjálfsögðu var farið með þetta sem trúnaðarmál. Engum datt annað í hug.

Það er einhver mesta steypa sem ég hef lengi heyrt --- menn skilja kannski betur það orðalag nú til dags --- þegar forseti tekur svo gömlu trúnaðarákvæðin úr utanrmn. og ætlar að nota þau sem öfugsönnun fyrir því að Alþingi að öðru leyti, þingmönnum eða þingnefndum, sé ekki trúandi fyrir viðkvæmum upplýsingum. Heyr á endemi! Það kemur úr hörðustu átt að ætla að gengisfella svo þingmenn og þingnefndir að þeim sé ekki treystandi fyrir viðkvæmum upplýsingum ef svo er ástatt og rökstutt er að þær skuli fara leynt, sem ég kaupi að vísu ekki í þessu tilviki því um er að ræða ráðstöfun opinberra fjármuna.

Hvað hefst nú upp úr öllu þessu brölti, herra forseti, þessari fáheyrðu og ómarktæku synjun forsrn. sem ætti að skammast sín að láta fara frá sér erindi með þessum hætti, í staðinn fyrir að bréfa það þá formlega þannig að það sé á ábyrgð ráðherrans eins og allt á að vera sem gert er í ráðuneyti í alvöru, en ekki svona tölvupóstsendingar í nafni einstakra starfsmanna. Það er auðvitað tilefni til að taka fyrir sérstaklega, hvernig menn kunna hlutina á þeim bæ úr því svo er.

Hvað sem hefst upp úr þessu, herra forseti, fyrir utan það hvernig virðulegur forseti okkar hefur misstigið sig hér í dag svo herfilega að leitun mun að öðru eins, þá vaknar a.m.k. mikil tortryggni um það hvernig þessum fjármunum er varið. Hvað þolir ekki dagsins ljós? Hefur verið rætt við þá sem þarna fengu greitt og þeir t.d. spurðir, til að leysa þá málið á einfaldan hátt? Hefur nokkur þeirra nokkuð á móti því að þessar upplýsingar séu birtar? Ef ekki þá mætti fara í að skoða hvort þær ættu að koma sem trúnaðarmál til fjárln.

Það sem hefst upp úr þessu, herra forseti, er hið gagnstæða við það sem mönnum gengur til með opinni stjórnsýslu, þ.e. að skapa traust, skapa traust á stjórnsýslunni og meðferð opinberra fjármuna. Þetta grefur undan slíku og vekur eðlilega grunsemdir um að eitthvað sé að fela. Ætlar virðulegur forseti þingsins að vera í því liði?