Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:36:58 (2328)

2001-12-03 17:36:58# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu skýrslu umboðsmanns Alþingis sem mér barst í hendur fyrir helgi og hef varið helginni til að kynna mér nokkuð. Ég verð að segja að ánægja mín með tilvist þessa embættis er mikil eftir að hafa grúft mig nokkuð yfir þessa skýrslu. Ég sé að hér er akkúrat tekið á þeim málum sem þarf að taka á og á annað borð er vísað til embættisins. Tekið er á þeim með slíkum ágætum, svo faglega, að vart er hægt að hugsa sér annað en fara eftir þeim úrskurði sem liggur fyrir í þessum málum. Mér finnst til fyrirmyndar hvernig að þessu er unnið.

Embætti umboðsmanns er óháð embætti í skjóli Alþingis og á að vera óháð framkvæmdarvaldinu. Eftir þeim upplýsingum sem koma hér fram í dag, um að framkvæmdarvaldið virðist allt í einu hafa tekið hæstv. forseta Alþingis og stungið honum í vasann dettur mér í hug hvort það sé kannski hægt fyrir hv. alþingismenn og hv. Alþingi að skjóta þessu máli til umboðsmanns Alþingis, um hvernig eigi að fara með uppýsingaskyldu til þingmanna.

Ég verð að segja að málum okkar er illa komið þegar hæstv. forseti Alþingis snýst, eins og hann hefur gert hér í dag, gegn Alþingi og lögvörðum og stjórnarskrárvörðum rétti alþingismanna til að fá upplýsingar og leggst á sveif með framkvæmdarvaldinu. Ég sé eiginlega ekki annað fært en að skjóta þessu máli til umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis á að tryggja réttaröryggi borgaranna og bæta stjórnsýslu í landinu. Ábendingar hans í þessari ágætu skýrslu eru afskaplega góðar og réttmætar og til þess fallnar að tryggja hvort tveggja, þ.e. ef viðkomandi stjórnvöld fara eftir ábendingum umboðsmanns Alþingis.

En það hefur borið á því að ákveðnir aðilar, og dettur mér þá fyrst í hug einn hv. alþingismaður sem viðhafði ekki fögur ummæli um úrskurði þessa embættis þegar þeir koma eitthvað við kaunin á honum, hafa ekki viljað fara að þessum úrskurðum. Ég verð að segja að þá eru nú góð ráð dýr ef stjórnvöld neita að bæta ráð sitt þegar þau fá eins vel undirbúnar ábendingar og um er að ræða í skýrslum umboðsmanns Alþingis.

Það eru tvenns konar mál, eins og við vitum, sem umboðsmaður tekur aðallega fyrir, þ.e. annars vegar kvartanir borgara sem telja sig hafa verið órétti beittir og hins vegar frumkvæðismál svokölluð, sem embætti umboðmanns tekur upp hjá sjálfu sér að fara í faglega. Við höfum hér í dag fengið ágæta skýrslu um réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum sem eru einmitt dæmi um slíkt frumkvæðismál. Ég hef sömuleiðis gluggað nokkuð í þá skýrslu og tel að þar séu margar réttmætar ábendingar og vil líka þakka það.

Á þessum fundi hefur komið fram að hæstv. forseti Alþingis kannast ekki við að hafa sagt það sem hann sagði hér úr forsetastóli í dag. Hann kvað þá upp mjög afdrifaríka úrskurði um upplýsingaskyldu stjórnvalda til alþingismanna. Ég verð að segja að mér kemur þetta mjög spánskt fyrir sjónir. Mér dettur í hug að í þessu tilfelli að hafi einhver talað í gegnum hæstv. forseta. Maður hefur stundum heyrt talað um að á andafundum falli miðlar í trans og segja ýmislegt sem þeir vilja svo ekki kannast við eftir á að hafa sagt eða hafa sagt óafvitandi. Mér dettur í hug að við höfum kannski orðið vitni hér að slíkum atburði í dag, að einhver andi --- ég vil ekki segja illur andi en það gæti alveg eins verið --- hafi í þessu tilfelli talað í gegnum hæstv. forseta Alþingis og hann kannist síðan ekki kannist við orð sín sem hann viðhafði undir þessum kringumstæðum. Það væri (Gripið fram í.) mikilvægt ef úr þessu fengist skorið.