Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:59:54 (2331)

2001-12-03 17:59:54# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessi viðbrögð hv. þm. og stuðning hennar við þau meginsjónarmið sem ég lýsti áðan. Hún rifjaði upp annað tilvik, og ég þakka henni sérstaklega fyrir það, sem lýtur að sama meginmáli og við ræðum hér, nefnilega því að allt og oft er það svo að ráðherrar skila inn ,,svörum`` sem eru í raun ekki svör við þeim spurningum sem fyrir liggja. Stundum er svarað með útúrsnúningum og stundum er svarið efnislega mjög rýrt.

Það tilvik sem hv. þm. rifjar upp, og ég ætla ekki að fara djúpt ofan í enn á ný, varðaði það að samkvæmt upplýsingum sem ég hafði stóðust svör ráðherra ekki fullkomlega. Ráðherra var hins vegar maður að meiri, kom hér eftir viku og gerði bragarbót á og ég vil rifja það upp að ég þakkaði henni sérstaklega fyrir það að vilja halda hinu rétta til haga og á réttum vettvangi, þ.e. á hinu háa Alþingi.

Ég gagnrýndi þá, og get gert það aftur þannig að ég noti ferðina, og vil einfaldlega minna á að svar ráðherra er hér hverju sinni ætíð og alltaf á ábyrgð viðkomandi ráðherra. Það getur aldrei orðið öðruvísi. Það er ráðherrann sem ber ábyrgðina en ekki Pétur eða Páll í viðkomandi ráðuneyti, hvort sem þeir eru skrifstofustjórar, ráðuneytisstjórar eða hjá undirstofnunum viðkomandi ráðuneytis. Þess vegna gerði ég það hér að umtalsefni að mér þætti færast í vöxt, og það hefur gert það, að ráðherrar koma hér og lesa upp af blaði, nánast með beinni tilvísun í eitthvert sjúkrahús, í einhvern embættismann, og láta í veðri vaka að þessi svör séu alfarið á ábyrgð þeirra. Þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni. Í þessum ræðustól eru ráðherrar ábyrgir gerða sinna eins og raunar við allir hinir.