Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:02:04 (2332)

2001-12-03 18:02:04# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Stjórnsýslan er viðamikil og margt sem framkvæmdarvaldið fæst við hverju sinni. Eðlilega á Alþingi rétt á því að fylgjast með hvernig fjárveitingum Alþingis er varið og hvernig lögum sem Alþingi setur er framfylgt. Það er vissulega rétt.

Í því tilviki sem nefnt var áður, þ.e. fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar til hæstv. dómsmrh. Sólveigar Pétursdóttur, var um að ræða ákveðna skilgreiningu á orðalagi og flokkun upplýsinga í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar. Segja má að það hafi e.t.v. fremur verið tilefnið til orðaskipta hv. þm. við hæstv. dómsmrh. út af svörum sem hún gaf.

Þar sem stjórnsýslan er umfangsmikil verður ráðherra að leita upplýsinga, fá þær og treysta þeim í flestum tilvikum. Það er þannig. Ef ástæða er til að bera brigður á þær hlýtur að fara fram efnisleg umræða um það á þeim vettvangi sem við á.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta en bendi enn og aftur á að umfangið er mikið. Það er mikilvægt að reglur séu skýrar og gagnsæjar og vilji sé til að fara að reglum.