Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:05:37 (2334)

2001-12-03 18:05:37# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við þessa umræðu hefur komið fram almenn ánægja með störf umboðsmanns Alþingis. Ég vakti athygli á því í upphafi umræðunnar hvort rétt væri að einskorða umboðsmannsheitið við þetta tiltekna embætti. Komið hafa fram hugmyndir um að stofna til embættis umboðsmanns fatlaðra, umboðsmanns aldraðra og fleiri hópar hafa einnig verið nefndir. Eins og við þekkjum hefur verið stofnað sérstakt embætti umboðsmanns barna.

Hv. alþm. hafa margir tekið undir þessi sjónarmið, að eðlilegt sé að einskorða þetta heiti við embætti umboðsmanns Alþingis. Mér finnst koma vel til álita að tekið verði til endurskoðunar heitið á embætti umboðsmanns barna. Þetta skapar líka ákveðinn rugling. Menn telja að embætti umboðsmanns barna hafi öðrum skyldum að gegna fyrir vikið.

Hvers vegna er almenn ánægja með störf umboðsmanns Alþingis? Jú, þar er unnið fagmannlega að málum til að tryggja að borgarinn eigi greiðari leið til að leita réttar síns gagnvart stjórnsýslunni. Í annan stað telja menn mikilvægt að stjórnsýslan fái aukið aðhald, eins og hún óneitanlega hefur fengið, eftir tilkomu þessa embættis. Ég held að enginn velkist í vafa um að þjóðfélagið hefur orðið opnara og stjórnsýslan fagmannlegri fyrir vikið. Þetta er nokkuð sem menn koma auga á og taka undir.

Inn í þessa umræðu hefur síðan fléttast gagnrýni á forsrn. sem hefur, því miður við undirtektir hæstv. forseta Alþingis, neitað Alþingi um upplýsingar um ráðstöfun fjármuna almennings. Hvaða peningaupphæðir erum við hér að tala um og hvernig er þessum fjármunum varið? Við erum að tala um 300 millj. kr. sem verja á til sérstaks gæluverkefnis ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, til einkavæðingarinnar. Þetta er einn umdeildasti þátturinn í stefnu þessarar ríkisstjórnar og hefur oft verið hart tekist á um einkavæðinguna á Alþingi.

Þegar fjárln. þingsins, sú nefnd sem fyrir hönd Alþingis undirbýr fjárlögin, leitar upplýsinga um hvernig þessum peningum er varið kemur svar frá embættismanni í forsrn. þess efnis að hér sé um að ræða viðkvæma viðskiptahagsmuni sem ráðuneytið sjái ekki ástæðu til að upplýsa Alþingi um. Svo bera menn fyrir sig upplýsingalög sem reyndar er rangt að gera vegna þess að upplýsingalögin taka ekki til Alþingis. Alþingismenn hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að leita eftir upplýsingum og til að fá svör.

Í annan stað byggir stjórnkerfi okkar á því að Alþingi og fjárveitingavaldið hafi tök á því að sinna eftirliti með framkvæmdarvaldinu og sýna því aðhald.

Burt séð frá lögunum og stjórnarskránni þá hlýtur það einnig að vera pólitísk krafa að um þetta sé upplýst, að sjálfsögðu. Ég sagði áðan í ræðustól að ríkisstjórnin hefði ekki leitað sérstaklega til óvina sinna um að véla um einkavæðinguna. Hún hefur leitað til þeirra sem hún ber mest traust til, til sérstakra vina sinna, jafnvel einkavina. Í því sambandi hefur oft verið talað um einkavinavæðingu. Nú spyrja menn: Þegar ríkisstjórnin neitar að upplýsa Alþingi um hvernig 300 millj. kr. af skattfé er varið, hvað er það sem menn hafa að fela? Taka fulltrúar beggja stjórnarflokkanna undir þetta? Hvert er álit framsóknarmanna á þeirri ákvörðun hæstv. forsrh. að meina Alþingi aðgang að þessum upplýsingum? Hvað segir formaður fjárln.? Ætlar hann að taka undir þetta? Ætlar hann að taka þátt í þessum feluleik?

Eitt vil ég fullyrða: Þessu máli er ekki lokið. Ég vil minna hæstv. forseta Alþingis á ábyrgð hans í þessu efni. Hann leyfði sér að koma upp áðan og flokka gagnrýni þeirra þingmanna sem hafa tekið þetta mál upp hér undir stóriðju og stóryrðaflaum. Sjálfur hefur hann ekki treyst sér í þessa umræðu til að færa rök fyrir máli sínu og svara því hvers vegna hann hefur lagst á sveif með forsrn. með að halda þessum upplýsingum leyndum fyrir Alþingi til að koma í veg fyrir að eðlilegum spurningum verði svarað.

Ég vil minna hæstv. forseta Alþingis á ábyrgð hans í þessu máli og ég harmaði það fyrr í dag að hann skyldi ekki hafa tekið upp hanskann fyrir Alþingi í þessari viðureign við framkvæmdarvaldið.