Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:20:29 (2336)

2001-12-03 18:20:29# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér hafa farið fram fjörugar umræður um skýrslu umboðsmanns Alþingis og hlýt ég að lýsa ánægju minni yfir því sem um hana hefur verið sagt og það traust sem umboðsmaður Alþingis nýtur á Alþingi.

Því miður snerust umræðurnar að miklum hluta til um önnur málefni sem ekki voru hér á dagskrá og er satt að segja dapurlegt til þess að vita að hver þingmaðurinn á fætur öðrum skuli standa upp og vitna til ummæla sem ég hafði fyrr í dag án þess að hafa þau eftir og án þess að gera grein fyrir þeim efnisatriðum sem fólust í ummælum mínum, heldur vaða hér upp með hvers konar fullyrðingar og digurmæli sem enginn fótur er fyrir.

Ég sakna þess pínulítið að sá þingmaður sem lýsti því yfir að hann væri feginn því að hafa ekki kosið mig sem forseta þingsins, hv. 3. þm. Norðurl. e., skuli ekki vera í þingsalnum svo ég geti átt við hann orðastað. Við getum svo sem gert það fyrir norðan. Mér þykir alltaf skemmtilegt að heyra hvernig hann tekur til máls, tungutak hans þegar hann kallar mig úldið smjör og þar fram eftir götunum. Þá gleðst maður auðvitað yfir því mikla myndríki sem hv. þm. býr yfir og góðum skilningi hans á íslensku máli.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa þingmanninn um að hv. 3. þm. Norðurl. e. upplýsti forseta um það hér áðan að hann þyrfti af persónulegum ástæðum að hverfa úr þingsalnum um stundarsakir.)

Mér þykir það leiðinlegt. Eins og ég sagði þá sakna ég hans mjög.

Það gerðist í upphafi fundar í dag, og ég verð að biðja forseta afsökunar á því að þurfa að taka það mál upp undir þessum dagskrárlið. Það hafði ég ekki ætlað mér. En þar sem það hefur verið látið viðgangast án athugasemda af hálfu hæstv. forseta að hver ræðumaður á fætur öðrum hefur kvatt sér hljóðs um málefni sem voru á dagskrá fyrr í dag undir liðnum athugasemdir um störf þingsins og úr því að þeir hafa komið hver á fætur öðrum og satt að segja snúið mjög hrapallega út úr ummælum mínum þá hlýt ég að biðja hæstv. forseta leyfis undir þessum dagskrárlið að svara þeim orðum sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu.

Það gerðist í dag undir liðnum athugasemdir um störf þingsins að fyrst kvaddi sér hljóðs hv. 15. þm. Reykv., Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, til þess að fjalla um mál sem varðaði heilbrrh. má ég segja. Ég bjóst síðan til þess að gefa hv. 4. þm. Austurl., Einari Má Sigurðarsyni, orðið eins og hann hafði beðið um. En hann óskaði eftir því að aðrir þingmenn töluðu á undan sér. Nauðsynlegt er að taka þetta fram vegna þess að hv. 3. þm. Norðurl. e. vék sérstaklega að því í ræðu sinni að ég hefði dregið það að gefa honum orðið til þess að umræður gætu ekki farið fram um þau efnisatriði sem hann talaði um. Það er auðvitað algerlega úr lausu lofti gripið eins og ég raunar leiðrétti fyrr í dag.

Það sem lá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni á hjarta var að fjárln. hafði sent forsrn. bréf þar sem óskað var tiltekinna upplýsinga og hann lauk máli sínu svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Herra forseti. Þess vegna er ljóst að svar forsrn. stenst ekki þau lög sem hér hefur verið vitnað til. Þess vegna er óskað eftir liðsinni hæstv. forseta svo tryggja megi að hv. þingmenn í fjárln. fái umbeðnar upplýsingar áður en 3. umr. um frv. til fjáraukalaga fer fram, þ.e. fyrir morgundaginn.``

Það er nauðsynlegt að draga þetta fram þar sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, lét orð falla á þá leið að enginn hefði beðið mig að fjalla um þetta mál, úrskurða í málinu eins og hann orðaði það. Nauðsynlegt er að það komi skýrt fram að ég brást vel við tilmælum hv. þm. þar sem hann talaði um að lög hefðu verið brotin á sér. Ég fór síðan í ræðu minni lítillega yfir þau lög sem fjalla um upplýsingaskyldu eða rétt þingnefnda til þess að fá upplýsingar og vakti athygli hv. þm. á því að samkvæmt þingsköpum eru ákvæði um að formaður nefndar eða ráðherra geti kveðið upp úr um að nefndarmenn skuli bundnir þagnarskyldu um vitneskju sem þeir fá í nefndinni. Ráðherra getur kveðið svo á um lögum samkvæmt. Engin slík ákvæði er að finna í lögum um aðrar þingnefndir. En það sem hv. þm. spurði mig sérstaklega um var, með leyfi hæstv. forseta, hvort svar forsætisnefndar stæðist lög sem vitnað hafði verið til og ég hlaut af þeim sökum að svara sérstaklega um þau lög sem gilda um þingnefndir. Óhjákvæmilegt var að gera það. Síðan tók ég fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 25. gr.`` --- þ.e. þingskapa --- ,,þar sem fjallað er um fjárln. er sérstaklega rætt um það að fjárln. skuli fá þær upplýsingar sem hún telji nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana. Mér er ekki kunnugt um annað en fjárln. hafi fengið slíkar upplýsingar.``

Þegar ég sagði þessi orð var búið að útbýta í hliðarsal brtt. frá meiri hluta fjárln. Alþingis við fjáraukalög og sömuleiðis var búið að útbýta nál. meiri hluta fjárln. Eftir að ég fór úr forsetastóli spurðist ég síðan fyrir um það á skrifstofu Alþingis hvort þess væri að vænta að nál. bærist frá 1. eða 2. minni hluta fjárln. varðandi þetta mál eða hvort eitthvert slíkt nál. lægi fyrir. Það lágu engin slík nefndarálit fyrir og skrifstofunni var ekki kunnugt um að von væri á slíkum nefndarálitum. Síðan óskaði ég eftir því að fá um það öll gögn hvernig þessi mál hefðu verið rædd í fjárln. Alþingis, hvort athugasemd hefði verið gerð þar við það að forsrn. svaraði ekki þeim spurningum sem fram komu. Það svar sem ég fékk var að málið hefði verið afgreitt úr fjárln. án þess að því væri mótmælt eða eftir því gengið að forsrn. svaraði því sem um var beðið og án þess að slíkt kæmi á dagskrá. Ég tók að vísu fyrirvara. Ég sagði í ræðu minni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég lít svo á ...`` og ,,Mér er ekki kunnugt um annað en ...`` o.s.frv. Mér var ekki kunnugt um annað. Síðan gekk ég úr skugga um hvort þetta væri rétt og kemur þá í ljós að nefndin hafði ekki óskað frekari upplýsinga þannig að augljóst er að forsn. leit svo á að hún hefði í höndum nægilegar upplýsingar til þess að geta afgreitt málið frá nefndinni. Engin athugasemd kom fram um það eins og málið liggur fyrir frá minni hluta fjárln. Þetta er að vísu ekki það mál sem hér var beinlínis spurt um en þetta upplýsir málið. Þá spyr ég: Hvar eru þá stóryrðin sem hér voru höfð í minn garð? Nefndin hafði ekki snúið sér til mín. Nefndin hafði ekki einu sinni sjálf fjallað um það hvort bréf forsrn. væri fullnægjandi eða ekki. Hvernig er þá við því að búast að mér sé kunnugt um að slík beiðni hafi verið sett fram þegar hún hafði aldrei verið sett fram? Þannig að ég held að hv. þm. eigi að spara sér stóryrðin svo ekki sé minna sagt.

Það sem ég segi síðan, með leyfi hæstv. forseta, og það er það síðasta sem fram kemur --- ætli það sé ekki rétt, herra forseti, að ég lesi það sem frá mínu brjósti kom í heild svo að það liggi alveg ljóst fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 25. gr., þar sem fjallað er um fjárln., er sérstaklega rætt um það að fjárln. skuli fá þær upplýsingar sem hún telji nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana. Mér er ekki kunnugt um annað en fjárln. hafi fengið slíkar upplýsingar. Ég lít svo á að niðurstaða forsrh. sé rétt þar sem ekki eru nein ákvæði í þingsköpum um þagnarskyldu annarra nefnda sambærileg við þau sem eru um utanrmn.``

Þetta lýtur að lögum eins og ég var um spurður. Hitt er svo annað mál að fjárln. getur tekið málið upp á sínum forsendum og hefði verið eðlilegt ef fjárln. taldi að það væri nauðsynlegt að hún gerði það en afgreiddi ekki málið frá sér án þess að slíkt kæmi til umræðu. Mér er ekki kunnugt um það í þingsögunni að forseti Alþingis hafi í eitt einasta sinn gert athugasemdir úr forsetastóli við það að nefnd þingsins afgreiði mál frá sér og láti undir höfuð leggjast að fá nægilegar upplýsingar. Mér er ekki kunnugt um það. Ég hygg að forseti Alþingis verði á hverjum tíma að treysta því að nefndir Alþingis vinni eftir bestu samvisku og eigi ekki að vera með puttana í því í krafti síns embættis.

Einhverjar slettur persónulega í minn garð af þessu tilefni eru auðvitað málefnalegt innlegg í samræmi við þann málflutning sem sumum þingmönnum lætur best að hafa uppi hér í þessum sal.

Út af þeim ummælum öðrum sem hér fóru fram vil ég minna hv. þingmenn á að það er rétt að upplýsingalög taka ekki til allra hluta, t.d. gilda upplýsingalög ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í 5. gr. upplýsingalaga segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.``

Svo mörg eru þau orð. Ég álít að þessi ákvæði séu ekki sett hér að tilefnislausu inn í þessi lög og þó svo að alþingismenn hafi meiri rétt en aðrir þegnar þá verða þeir að gæta vel að því hvernig þeir fara með sitt vald og hvernig þeir fara með þann aðgang sem þeir hafa að hinum ýmsu upplýsingum. Það væri t.d. mjög óheppilegt ef þingmenn sæktust eftir því í krafti sérstöðu sinnar að fá aðgang að persónulegum og viðkvæmum upplýsingum um menn úti í þjóðfélaginu til að beita slíkum upplýsingum hér í pólitískri baráttu inni á Alþingi eða bara að gamni sínu, eða svo ég taki annað dæmi, ef þingmenn skeyttu því engu þó að þeir sköðuðu viðskiptalega hagsmuni fyrirtækja eða einstaklinga úti í þjóðfélaginu. Ég álít að óhjákvæmilegt sé að alþingismenn virði þann rétt sem menn hafa yfir einkalífi sínu og ég álít að alþingismenn eins og aðrir hljóti að gæta stöðu sinnar og þess trúnaðar sem þeir hafa fengið með því að vera kjörnir hingað í löggjafarsamkunduna. Ég held að það sé aðalatriðið. Það þjónar að sjálfsögðu á hinn bóginn engum tilgangi að tala í svigurmælum eða upphrópununm um mál af þessu tagi. Aðalatriðið er að við hljótum að reyna að tryggja að Alþingi hafi stöðu til að vinna málefnalega að sínum málum.