Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:35:52 (2337)

2001-12-03 18:35:52# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún var vægast sagt sérstæð, ræða hv. 1. þm. Norðurl. e. sem í reynd skaut sér undan því að ræða það málefni sem við höfum rætt í dag, sem í reynd vildi ekki ræða þá grundvallarumræðu sem hér fór fram og laut að því hver væri réttur þingmanna, hvert væri hlutverk þeirra. M.a. svaraði hv. þm. ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans sem var á þá leið hvernig þingmenn ættu að sinna eftirlitsskyldu sinni ef þeim er sí og æ neitað um upplýsingar.

Ég get þó tekið undir það með hæstv. forseta að þau tilefni geta komið upp að eðlilegt sé að þingmenn fái ekki slíkar upplýsingar. Það kunna að koma upp þau tilefni. En reyndar ekki þau hvernig framkvæmdarvaldið ráðstafar 300 millj. Það hefur ekkert með þessa hluti að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut.

En ég vil aðeins halda áfram þessari skrýtnu umræðu og þeim skrýtna úrskurði sem forseti lét falla í dag. Þá ætla ég að beina til hans einni lítilli spurningu. Hún er á þá leið: Hver er réttur embættismanna, hver er réttur framkvæmdarvaldsins, hver er réttur embættismanna til þess að heita þagnarskyldu um tiltekin mál gagnvart aðilum úti í bæ? Geta embættismenn með loforðum sínum tryggt það að alþingismenn eigi ekki rétt til upplýsinga? Geta þeir heitið því í samskiptum við tiltekin fyrirtæki að það loforð geri það að verkum að þingmenn eigi ekki lengur rétt til upplýsinga? Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. forseti talaði um í ræðu sinni, hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég spyr því hv. 1. þm. Norðurl. e.: Geta einstakir embættismenn undanþegið tilteknar upplýsingar upplýsingarétti þingmanna?