Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:37:29 (2366)

2001-12-04 13:37:29# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Váleg tíðindi berast frá Miðausturlöndum nær. Hryðjuverk eru að magnast upp í hernaðarátök sem ekki er séð fyrir endann á. Ísraelsstjórn virðist ekki lengur gera greinarmun annars vegar á herskáum harðlínuhópum og hins vegar almennu löggæsluliði Palestínu-Araba. Allir eru settir undir einn hatt og skilgreindir sem réttdræpir hryðjuverkamenn og virðist það taka til almennra borgara, íbúa á hernumdu svæðunum.

Svo er að skilja á ýmsum valdamönnum heimsins, svo sem Bandaríkjaforseta, að svo fremi sem Ísraelsmenn setji hryðjuverkastimpilinn á andstæðinga sína séu allar aðgerðir gegn þeim réttlætanlegar. Þetta er varasöm afstaða og þetta er frumstæð afstaða.

Frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna hefur á hinn bóginn borist hvatning til allra ríkja heims að leggjast á eitt um að fá Ísraelsmenn og Palestínu-Araba til að setjast þegar í stað að samningaborði. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hvetur til þess að íslenska ríkisstjórnin fordæmi harðlega hernaðarofbeldið, hið vopnaða ofbeldi sem heimurinn verður nú vitni að og taki undir kröfu um að þegar í stað verði sest að samningaborði í skjóli friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna.