Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:45:49 (2370)

2001-12-04 13:45:49# 127. lþ. 42.96 fundur 197#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er nauðsynlegt í ljósi þeirrar umræðu sem fór hér fram í gær varðandi svör frá forsrn. til fjárln. að upplýsa gang mála frá þeirri umræðu.

Í hádeginu í dag var haldinn aukafundur í fjárln. þar sem fyrir lá ósk frá forsrn. um að að nefndin héldi trúnað varðandi upplýsingar um það hvernig 300 milljónir, sem ætlaðar eru til einkavæðingarverkefna, skiptast milli þeirra aðila sem þær eiga að fá.

Við því var orðið af hálfu nefndarinnar að gæta trúnaðar í málinu en að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að a.m.k. minni hluti nefndarinnar telur ámælisvert að þessi gögn þurfi að vera í trúnaði og við áskiljum okkur fullan rétt til að gagnrýna það að slík gögn séu í trúnaði. Hins vegar teljum við það mikilvægasta í málinu og fögnum því að sjálfsögðu að umbeðnar upplýsingar muni berast til nefndarinnar. Og það er ástæða til að þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni fjárln., fyrir að hafa beitt sér í þessu máli þrátt fyir þau orð sem féllu hér í gær af hálfu hæstv. forseta þingsins. Með þessu tel ég að að þessu leyti hafi andliti löggjafarvaldsins verið bjargað gagnvart framkvæmdarvaldinu.