Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:47:11 (2371)

2001-12-04 13:47:11# 127. lþ. 42.96 fundur 197#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er alvarlegt þegar Alþingi og þingnefndir geta ekki sinnt skyldum sínum og starfað með eðlilegum hætti, leitað þeirra upplýsinga sem eru nauðsynlegar til að geta metið og ákvarðað einstök mál í afgreiðslum hér á Alþingi.

Eitt slíkt var einmitt fyrirspurn til forsrn. varðandi ráðstöfun á 300 millj. kr. aukafjárveitingarbeiðni til einkavæðingarverkefna. Ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er fjáraukalagabeiðni. Þetta er eitthvað sem kemur upp mjög brýnt og Alþingi er beðið um að taka til afgreiðslu sem sérstakt og afbrigðilegt verkefni sem hafi borið svo brátt að. Því var mjög eðlilegt að fjárln. leitaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvað þarna væri verið að gera, til hvers ætti að verja þessu fé eða hvernig því hefði verið varið ef það væri búið. Við þessu bréfi kom síðan svar í tölvupósti um að þingnefndinni væri ekki heimill aðgangur að þeim upplýsingum.

Þetta er alvarlegt mál, herra forseti. Á fundi í hádeginu í dag voru síðan skilaboð frá forsrn. um að þessar upplýsingar gætu legið fyrir fjárln. og einstökum fjárlaganefndarmönnum ef þeir ábyrgðust að taka á þeim málum í trúnaði.

Að sjálfsögðu er hægt að taka við málum í trúnaði en það verður að mótmæla svona vinnubrögðum af hálfu framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarsamkomunni og því alvarlega fordæmi sem þetta skapar ef hægt er með þessum hætti að skjóta sér undan því að miðla eðlilegum upplýsingum til Alþingis.