Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:53:59 (2375)

2001-12-04 13:53:59# 127. lþ. 42.93 fundur 194#B umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég verð að mótmæla þessu hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni. Ég vil mótmæla því að menn séu með einhverjum hætti að misnota aðstöðu sína hér til að ræða mál sem koma upp. Hér lýsti ég því áðan --- vegna þess að ég tel að hv. þm. hafi m.a. verið að vísa til þeirrar umræðu sem ég hóf hér --- að hæstv. utanrrh. hefur gefið ákveðna yfirlýsingu um stuðning íslenska lýðveldisins við baráttuna gegn hryðjuverkum. Ég lýsti því jafnframt yfir að ákveðin skýring hefði komið fram af hálfu forsætisráðherra ríkis sem var að ráðast á Palestínumenn.

Ég taldi algjörlega nauðsynlegt, vegna þess stuðnings sem minn stjórnmálaflokkur hefur veitt hæstv. utanrrh., að fram kæmi að hann væri þeirrar skoðunar að forsætisráðherra Ísraels hefði engan rétt til að túlka gang mála eins og hann gerir.

Ég hefði auðvitað getað farið í fullvaxna utandagskrárumræðu síðar í dag. Ég taldi einfaldlega að þetta form þingsins nægði til að skýra þetta. Og ég held að það greiði fyrir þingstörfum og hafi greitt fyrir störfum hæstv. utanrrh. að gera það með þessum hætti fremur en að fara hér eftir atvikum í hálftímaumræðu eða lengri umræðu, herra forseti, þannig að ég mótmæli þessu algjörlega.

Ég tel sjálfur að það form sem hér hefur í vetur verið að þróast, m.a. að frumkvæði Samfylkingarinnar, að menn noti þetta tækifæri til að fá svör við mikilvægum spurningum sem koma upp og til að koma á framfæri viðhorfum, hafi gert þetta þing miklu líflegra en ella. Og ég er þeirrar skoðunar að með þessum hætti sé auðveldara fyrir okkur að eiga orðastað við ráðherrana og það sé auðveldara að kristalla þann ágreining sem er á millum stjórnmálaflokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Þannig að ég held, herra forseti, að í stað þess að hlíta tilmælum hv. þm. Magnúsar Stefánssonar eigum við að feta áfram þennan stíg vegna þess að það gerir þingið bæði skemmtilegra og meira upplýsandi --- og hlífir auðvitað hæstv. ráðherrum við óhóflegri vinnu.