Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 14:02:09 (2381)

2001-12-04 14:02:09# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Þess var óskað af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að ég gerði grein fyrir nokkrum atriðum varðandi það mál sem hér hefur verið til umræðu, ósk fjárln. um upplýsingar frá forsrn. varðandi ákveðin útgjöld. Þarf þó vart að endurtaka það sem hér var sagt fyrr, að í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram í þingsölum í gær ákvað ég strax að bregðast við og að nefndin léti málið til sín taka. Það var ekki hægt að gera það í gærkvöldi en þó var málið undirbúið í gærkvöldi og í morgun. Nefndin hefur sýnt að mínu mati frumkvæði og sjálfstæði með því að óska aftur eftir þessum upplýsingum jafnhliða því að bæði hún og einstakir nefndarmenn sem á fundinum voru lýsa því yfir að þeir muni halda trúnað um þær upplýsingar sem þar koma fram. Þetta er stutt þeim reglum sem eru til stuðnings þingsköpum og til þessara reglna var vitnað í gær af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni en, með leyfi forseta, segir í 4. gr. og þar vitna ég til samþykktar á fundi forsn. 5. desember 1994:

,,Þingnefnd getur ákveðið að ósk sendanda erindis eða að eigin frumkvæði að farið skuli með erindi að öllu leyti eða að hluta sem trúnaðarmál.``

Greinin er lengri og fjallar um skylda þætti en þó ekki efnislega nákvæmlega það sem hér er um að ræða.

Á fundi fjárln. í dag hafa nefndarmenn óskað eftir því að fá þessar upplýsingar jafnhliða því að þeir vilja fara með það sem trúnaðarmál og tel ég því að málið sé fullkomlega í farvegi innan þeirra starfsreglna sem þingið hefur sett okkur og það verði orðið við óskum þingmanna um þær upplýsingar sem um er beðið og vænti ég þess að þær upplýsingar berist frá forsrn. Þær upplýsingar hef ég ekki hér þar sem ég stend í þessum stóli en svo fljótt sem mér berast þær mun ég gera grein fyrir þeim.

Virðulegi forseti. Ég mæli þá fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um fjáraukalög fyrir árið 2001.

,,Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Tekjur hækka frá frumvarpinu um 1.265 millj. kr. og verða 1.150,4 millj. kr.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstökum þingskjölum. Þær varða 1. gr. frumvarpsins, sbr. sundurliðun 1 og 2, 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2001, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir, og 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2001, þ.e. heimildagrein. Breytingar á sundurliðun 2 nema alls 609,8 millj. kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.``

Skýringar við einstakar brtt. geri ég nú að umræðuefni og vík fyrst að menntmrn.

Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 365 millj. kr.

Ríkisútvarpið. Lagt er til að framlag til Ríkisútvarpsins hækki um 365 millj. kr. í samræmi við auknar tekjur af afnotagjöldum á yfirstandandi ári. Áætlað er að afnotagjöldin skili um 1.990 millj. kr. í tekjur samanborið við 1.625 millj. kr. samkvæmt áætlun fjárlaga. Mismunurinn skýrist að hluta til af 7% hækkun afnotagjalda frá 1. janúar sl. sem ekki var áætlað fyrir í fjárlögunum. Tekjuhlið fjárlaga hækkar um sömu upphæð og hefur breytingin því ekki haft áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Landbúnaðarráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 148 millj. kr.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Gerð tillaga um 54 millj. kr. fjárheimild til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla frá liðnum árum. Lagt er til að hluta af söluhagnaði Stofnfisks verði varið í þessu skyni í stað þess að honum verði varið til fiskeldislána eins og heimild var fyrir í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2001.

Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 44 millj. kr. fjárheimild til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla á liðnum árum. Lagt er til að hluta af söluhagnaði Stofnfisks verði varið í þessu skyni í stað þess að honum verði varið til fiskeldislána eins og heimild var fyrir í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2001.

Garðyrkjuskóli ríkisins. Lögð er til 10 millj. kr. fjárheimild til að greiða upp uppsafnaðan rekstrarhalla frá liðnum árum. Lagt er til að hluta af söluhagnaði af jörðinni Straumi verði varið í þessu skyni.

Skógrækt ríkisins. Gerð er tillaga um 44 millj. kr. fjárheimild til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla frá liðnum árum. Lagt er til að hluta af söluhagnaði af jörðinni Straumi verði varið í þessu skyni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 61,8 millj. kr.

Kirkjumálasjóður. Gerð er tillaga um að hækka lögboðið framlag til Kirkjumálasjóðs um 2,4 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Framlagið er reiknað sem 11,3% af sóknargjöldum en þau hækka í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattsstofni milli næstliðinna tveggja ára. Hækkunin milli tekjuáranna 1999 og 2000 var 8,8%.

Kirkjugarðsgjöld. Lagt er til að lögboðið framlag til kirkjugarða vegna kirkjugarðsgjalds verði hækkað um 14,8 millj. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Kirkjugarðsgjald hækkar í samræmi við hækkanir á meðaltekjuskattsstofni milli næstliðinna tveggja ára. Hækkunin milli tekjuáranna 1999 og 2000 var 8,8%.

Gerð er tillaga um að hækka lögboðið framlag til Kirkjugarðasjóðs um 1,3 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Framlagið er reiknað sem 8% hlutdeild í kirkjugarðsgjaldi en það tekur hækkun í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattsstofni milli næstliðinna tveggja ára. Hækkunin milli tekjuáranna 1999 og 2000 var 8,8%.

Sóknargjöld hækka í samræmi við hækkanir á meðaltekjuskattsstofni milli næstliðinna tveggja ára. Hækkunin milli tekjuáranna 1999 og 2000 var 8,8%.

Lagt er til að lögboðið framlag til þjóðkirkjunnar vegna sóknargjalda verði hækkað um 21,6 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Lagt er til að lögboðið framlag til annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar vegna sóknargjalda verði hækkað um 7,5 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Lagt er til að lögboðið framlag til Háskóla Íslands vegna sóknargjalda verði hækkað um 10,2 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Gerð er tillaga um að hækka lögboðið framlag til Jöfnunarsjóðs sókna um 4 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Framlagið er reiknað sem 18,5% af sóknargjöldum en þau hækka í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattsstofni milli næstliðinna tveggja ára. Hækkunin milli tekjuáranna 1999 og 2000 var 8,8%.

Félagsmálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 9 millj. kr.

Gerð er tillaga um 9 millj. kr. aukafjárveitingu vegna halla sem stafar af launabreytingum hjá starfsmönnum sem starfa við vistheimilið Skálatún, en það eru starfsmenn utan SFR, og ekki eru bættar sérstaklega á launa- og verðlagslið fjárlaga.

Fæðingarorlof. Lagt er til að 61,6 millj. kr. verði millifærðar innan þessa fjárlagaliðar af viðfangsefninu 1.11 Fæðingarorlofssjóður á viðfangsefnið 1.01 Umsýslukostnaður Tryggingastofnunar ríkisins. Fjárheimildin er vegna kostnaðar Tryggingastofnunar við undirbúning starfsemi Fæðingarorlofssjóðs árið 2000 og starfsemi hans árið 2001. Samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sér Tryggingastofnun ríkisins um vörslu sjóðsins, reikningshald hans og afgreiðslu í umboði félagsmálaráðherra. Áætlunin er byggð á mati Ríkisendurskoðunar sem telur að kostnaður Tryggingastofnunar árið 2000 verði 8,4 millj. vegna hugbúnaðargerðar og annarra undirbúningsþátta og 53,2 millj. kr. vegna ársins 2001. Þar af eru 17 millj. kr. vegna hugbúnaðargerðar. Tryggingastofnun ríkisins hefur haft umsjón með greiðslum úr eldra kerfi sem starfrækt verður til ársloka 2001. Frá þeim tíma fellur kostnaður við rekstur þess niður svo og ýmis undirbúningskostnaður við að hrinda nýju kerfi í framkvæmd og mun það koma á móti rekstrarkostnaði stofnunarinnar af nýja fæðingarorlofssjóðnum frá og með árinu 2002.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 20 millj. kr. Lagt er til að útgjaldaheimild Tryggingastofnunar ríkisins verði aukin um 61,6 millj. en að sértekjur hækki á móti um sömu fjárhæð þannig að framlag úr ríkissjóði verði óbreytt eftir sem áður.

[14:15]

Fjárheimildin er vegna kostnaðar Tryggingastofnunar við undirbúning starfsemi Fæðingarorlofssjóðs árið 2000 og starfsemi hans árið 2001. Samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sér Tryggingastofnun ríkisins um vörslu sjóðsins, reikningshald hans og afgreiðslu í umboði félagsmálaráðherra. Áætlunin er byggð á mati Ríkisendurskoðunar sem telur að kostnaður Tryggingastofnunar árið 2000 hafi verið 8,4 millj. kr. vegna hugbúnaðargerðar og annarra undirbúningsþátta og 53,2 millj. kr. árið 2001. Þar af eru 17 millj. kr. vegna hugbúnaðargerðar. Tryggingastofnun ríkisins hefur haft umsjón með greiðslum úr eldra kerfi sem starfrækt verður til ársloka 2001 ef fer sem verkáætlun gerir ráð fyrir. Frá þeim tíma fellur kostnaður við rekstur þess niður svo og ýmis undirbúningskostnaður við að hrinda nýju kerfi í framkvæmd og mun það koma á móti rekstrarkostnaði stofnunarinnar af nýja fæðingarorlofssjóðnum frá og með árinu 2002. Sértekjurnar sem stofnunin hefur til að fjármagna verkefnið eru færðar sem framlag frá viðfangsefninu 07-989 1.01 Umsýslukostnaður Tryggingastofnunar ríkisins hjá félagsmálaráðuneyti.

Ég vík þá að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Gerð er tillaga um 5 millj. kr. aukafjárveitingu þar sem óhjákvæmilegt hefur reynst að auka starfsemi meinafræðideildar á árinu. Það hefur leitt til meiri mönnunar og hækkunar á kostnaði.

6.01 Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. aukafjárveitingu vegna nýrrar vararafstöðvar sem reyndist óhjákvæmilegt að kaupa og taka í notkun með tilkomu nýrrar legudeildarálmu og flutnings barnadeildar í nýtt húsnæði. Útboð á vararafstöð ásamt húsnæðisbreytingum fór að hluta fram árið 2000 en lýkur á þessu ári. Heildarkostnaður fór fram úr upphaflegri áætlun, nemur nú um 39 millj. kr. Framlög vegna þess námu 2,2 millj. kr. og 11 millj. kr. í fjárlögum og fjáraukalögum 2000.

Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði óbreytt.

Siglingastofnun Íslands. 6.70 Hafnamannvirki. Gerð er tillaga um breytingar á framkvæmdaröð á hafnaáætlun sem ekki hefur áhrif á heildarframlag til stofnunarinnar. Lagt er til að framlag til framkvæmda á Vopnafirði hækki um 84,4 millj. kr. og á Arnarstapa í Snæfellsbæ um 3,9 millj. kr. Þá er lögð til samsvarandi lækkun á framlögum til framkvæmda sem áætlaðar voru á þessu ári: Í Bolungarvík 14 millj. kr., á Þórshöfn 54 millj. kr., á Fáskrúðsfirði 18 millj. kr. og í Sandgerði 2,3 millj. kr. Heildarframlög til þessara framkvæmda koma fram í sérstökum yfirlitum II.

Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 6 millj. kr.

Orkusjóður. 1.13 Jarðhitaleit. Lögð er til 6 millj. kr. fjárveiting til að uppfæra jarðfræðikort af Heimaey, seltu- og hitamæla allar tiltækar borholur og gera í kjölfarið grunnvatnskort af eynni.

Virðulegi forseti. Ég les þá skýringar við 3. gr., en skýringarnar eru svohljóðandi:

Nokkrar breytingar eru lagðar til á 3. gr. frumvarpsins sem breytir 5. gr. fjárlaga. Lagt er til að Íbúðalánsjóði verði veittar auknar lántökuheimildir í ljósi þróunar útlána það sem af er árinu. Lánsfjármögnun hækkar um 940 millj. kr. frá fjárlögum ársins til að fjármagna viðbótarlán sem sjóðurinn sér um að veita fyrir hönd sveitarfélaganna. Enn fremur er húsbréfadeild heimilað að auka lántökur um 4.200 millj. kr. vegna aukinnar útgáfu húsbréfalána og áformuð lántaka til endurfjármögnunar á eldra húsnæðiskerfi lækkar um 2.500 millj. kr. í ljósi endurskoðunar á sjóðstreymi Byggingarsjóða ríkisins og verkamanna.

Jafnframt er lagt til að lántökur og útlán Byggðastofnunar verði aukin um 300 millj. kr. og verði 1.600 millj. kr. á árinu 2001. Er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 5. október sl., en það er mat stjórnenda stofnunarinnar að eiginfjárstaða hennar standi undir auknum útlánum.

Þá er lagt til að við bætist nýr liður sem heimili Rafmagnsveitum ríkisins að taka lán er nemur allt að 780 millj. kr. Þar af eru 300 millj. kr. til kaupa á Rafveitu Sauðárkróks og 480 millj. kr. til að standa undir hallarekstri fyrirtækisins vegna óarðbærra rekstrareininga.

Loks er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að veita hinu nýja hlutafélagi um rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sjálfskuldarábyrgð er nemur allt að 2.500 millj. kr. til að standa undir endurfjármögnun lána í árslok 2001.

Í sundurliðun 2 með frumvarpinu birtust tvær tillögur án þess að skýringar fylgdu þeim. Ekki var gert ráð fyrir þeim í samtölum 1. og 2. gr. frumvarpsins, enda áttu þær ekki að vera í sundurliðuninni og birtust þar vegna mistaka við frágang prentskrár. Þær tillögur sem um ræðir voru annars vegar 1,3 millj. kr. undir liðnum 01-190 1.55 Íslenskt bókasafn við háskólann í Manitoba, Kanada, og hins vegar 9 millj. kr. undir liðnum 08-500 1.10 Heilsugæslustöðvar, almennt. Tillögurnar eru ekki í stöðuskjalinu og hefur breytingin ekki áhrif á útgjöldin í frumvarpinu þar sem ekki var gert ráð fyrir þeim í lagagreinum þess.

Undir þetta nál. ritar meiri hluti fjárln. Þann meiri hluta skipa hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson formaður, Einar Oddur Kristjánsson varaformaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Pálsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Drífa Hjartardóttir og Tómas Ingi Olrich.