Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 14:34:20 (2394)

2001-12-04 14:34:20# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ýmislegt í ræðu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar sem rétt væri að vekja athygli á en ég mun gera það í ræðu minni hér á eftir. Þó er eitt atriði sem ég tel afar nauðsynlegt að verði upplýst nú strax, þ.e. varðandi ákvæði sem snúa að sölu eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Straumi í Hafnarfirði.

Þannig er mál með vexti að í umræðum hér um fjárlög í fyrra kom afar skýrt fram hjá þáv. formanni fjárln. hvernig með skyldi farið. Þess vegna er nauðsynlegt að hv. þm. útskýri fyrir þingheimi hvað hafi breyst frá þeim tíma.

En hv. fyrrv. formaður fjárln., hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson, sagði orðrétt, með leyfi forseta, í umræðum hér í fyrra:

,,Það er fortakslaust að söluandvirðinu á að verja til styrktar rekstri Skógræktar ríkisins, enda eru gjafabréf fyrir þessum jörðum sem fjalla um að þær séu gefnar til Skógræktarinnar. Þetta eru jarðir sem voru gefnar til Skógræktarinnar á sínum tíma og það er ótvírætt og skilningur meiri hluta nefndarinnar að þessu verði varið til styrktar rekstri Skógræktarinnar. Allar fyrri yfirlýsingar mínar varðandi þetta standa og ég vil staðfesta það hér.``