Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 15:06:13 (2404)

2001-12-04 15:06:13# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta nokkurra atriða í tilefni af ummælum hv. þm. og einnig í tilefni af ummælum hv. 4. þm. Austurl. fyrr í dag varðandi ráðstöfun á andvirði söluhagnaðar af jörðinni Straumi. Þar er svo sannarlega allt með felldu. Við hæstv. landbrh. höfum gert samkomulag um hvernig þessu andvirði skuli varið. Eins og kunnugt er var þessi jörð á sínum tíma ánöfnuð Skógrækt ríkisins en nú er um það að ræða að verið er að taka þessa jörð til sölumeðferðar og ákveðinn hluti hennar hefur þegar verið seldur með gjörningi sem skrifað var undir nú fyrir síðustu helgi.

Andvirði þessa hluta jarðarinnar er 102 milljónir eins og hv. formaður fjárln. hefur getið um. Við höfum gert um það samkomulag að ráðstafa þessu andvirði á næstu árum í þágu Skógræktar ríkisins en einnig 10 millj. kr. á þessu ári, eins og fram kemur í fjáraukalagafrv. og brtt. við það, til Garðyrkjuskóla ríkisins til að gera þar upp rekstrarhalla enda stundar sá skóli ... (Gripið fram í.) Nei, það eru 40 til Skógræktar ríkisins, (Gripið fram í.) 40 til Skógræktar ríkisins og 10 til Garðyrkjuskólans --- leyfið mér að klára, hv. þm., og lesið breytingartillögurnar --- og síðan á næstu árum einvörðungu í þágu Skógræktarinnar.

Það er auðvitað fullkomlega réttlætanlegt að nota þetta tækifæri og létta byrðum af Garðyrkjuskólanum vegna þess að hann stundar líka rannsóknir og starfsemi í þágu skógræktar í landinu. Þess vegna er þetta svona í pottinn búið og það hefur verið tekið fullt tillit til þess sem á undan er gengið í þessu máli. Ég held að það sé algjörlega ómaklegt að bera það á borð hér að hv. fyrrv. formaður fjárln., núv. heilbrrh., hafi verið gerður að ómerkingi í þessu máli. Það er af og frá.