Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 15:11:57 (2407)

2001-12-04 15:11:57# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. telji það vera smámuni að ganga gegn þeim ákvæðum sem vitnað hefur verið til. Það getur verið að hann sé þeirrar skoðunar að það sé smámál að gjafabréf sé með ákveðnum ákvæðum og ef einhverjum þyki henta að hagræða þeim þá sé það í lagi en telji menn það ekki í lagi þá sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. Ég tel að svo sé ekki.

Ég segi bara: Það er alveg eðlilegt að veita Garðyrkjuskólanum aðstoð í rekstrarvanda hans. Spurningin er bara hvaðan peningarnir eru fengnir. Þeir eru teknir af andvirði sölu jarðarinnar Straums sem var gefin með ákveðnum skilyrðum. Þetta er svo einfalt í mínum huga. Ég er ekki að áfellast hæstv. fjmrh. þó að hann finni einhverja lausn sem honum finnst viðunandi. En ég verð að taka það fram hvaða skoðun ég hef á því gjafabréfi sem þarna er um að ræða.

Vegna orða minna áðan um áreiti þá setti ég hér fram fjölmargar spurningar, m.a. til hæstv. fjmrh. í umræðu um fjárlög. Þess vegna nefndi ég það áðan og þakkaði fyrir að fá svör. En ég fékk engin svör við þeim spurningum sem ég bar upp, til reyndar fleiri en eins ráðherra.