Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 15:59:15 (2416)

2001-12-04 15:59:15# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. vildi í rauninni koma þarna vel að málum ætti hann að styðja þessa tillögu. (KLM: Um ljósastaurana? Nei.)

Það er erfitt að horfa upp á það að sveitarfélög úti um land verði að selja eignir sínar, orkuveitur, til að leysa úr bráðaskuldavanda. Svo horfum við upp á það hér á suðvesturhorninu að þar styrkja þessar orkuveitur sig, þær eru meðal sterkustu stoða viðkomandi sveitarfélaga og viðkomandi samfélags og þangað sækja þessi sveitarfélög styrk í nýsköpun atvinnulífs. En úti á landi er þessu þveröfugt farið. Það er af ástæðum sem eru til komnar vegna rangrar stefnu ríkisins í efnahagsmálum og atvinnumálum. Það bætir ekki úr skák fyrir þessi sveitarfélög þegar eignir þeirra eru teknar ein af annarri upp í skuldir. Að sjálfsögðu bregðast sveitarfélögin við og reyna að leysa þau mál eins og þau best geta en ríkið ber líka skyldur, sem og við hér á Alþingi, gagnvart þessum sveitarfélögum, gagnvart fjárhag þeirra og stöðu og gagnvart möguleikum þeirra til búsetu og að tryggja öflugt atvinnulíf og sterkt samfélag. Og það gerum við með því að leggja fram tillögur eins og þá sem hér var lögð fram, virðulegi forseti.