Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:01:00 (2417)

2001-12-04 16:01:00# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. sé einhvers staðar nálægur þannig að ríkisstjórnin eigi a.m.k. einn fulltrúa hér við umræðuna. Það má nú ekki minna vera. Það gengur satt best að segja heldur illa að fá hæstv. ráðherra til að vera hér viðstadda umræður þegar málaflokkar þeirra eiga undir, hvort heldur er í umræðum um fjárlög eða fjáraukalög og virðist vera orðið algjört metnaðarleysi gagnvart því að menn eigi þess kost að ræða hlutina við viðkomandi fagráðherra jafnframt því að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur. Og öll góð áform og fyrirheit um að greiða fyrir umræðunni með því að ráðherrar reyni að vera við a.m.k. á þeim sérstöku dögum þegar svona umræður fara fram, renna út í sandinn og iðulega er stór hluti þeirra erlendis þegar eftir því er spurt hvar þeir haldi sig. Því leita náttúrlega á mann spurningar um hvort hæstv. ráðherrar megi yfirleitt vera að því að stjórna landinu.

Staðreyndin er sú, herra forseti, þegar fjáraukalagafrv. fyrir árið 2001 er að koma til lokaumræðu þá liggur sú napurlega staðreynd á borðum að afgangur af ríkissjóði hefur gufað upp og fjárlögin sem slík, að slepptri eignasölu, áætlaðri en óorðinni eignasölu, eru orðin öfug. Það er nú allt og sumt sem eftir stendur af góðærinu og hinum glæsilega árangri í ríkisfjármálum, herra forseti. Þær staðreyndir liggja hér fyrir okkur og þeim er ómótmælt. Það staðfestir Ríkisendurskoðun í úttekt sinni og fleiri gögn eru því til staðfestingar að fjármunamyndun frá rekstri ríkisins á þessu ári er neikvæð upp á nokkra milljarða og eignasölu þarf til til að koma ríkissjóði í afgang.

Það sem kostulegra er, herra forseti, er að núna þegar komið er fram í desembermánuð er þessi eignasala öllsömul bara fuglar í skógi enn þá. Það gengur alveg hörmulega að koma þessum eignum ríkisins út og er þó ekki til sparað að reyna það.

Maður hlýtur að spyrja, herra forseti, í hvað þessir peningar hafi farið, þessar óhemju fjárhæðir sem í þessum sömu fjáraukalögum er verið að heimta handa forsrn. til að smyrja hjólin og þarf að vera ríkisleyndarmál hvernig þeim er varið. En það hefur samt ekki tekist að selja eignirnar. Það eru skitnar 270 millj. heyrði ég hér áðan sem búið er að tekjufæra sem þegar tilfallinn söluhagnað vegna eigna ríkisins á árinu.

Hvar er restin? Jú, hún er í óljósum áformum um að mögulega náist eitthvað inn fyrir Landssímann einhvern tíma á næstu vikum eða mánuðum. Og hvað varðar Landsbankann virðist enn lengra í land ef eitthvað er.

Herra forseti. Eitt af því sem er alvarlegt í sambandi við stöðu ríkisfjármála og opinberra aðila nú á tímum er bág staða sveitarfélaga. Ég ætla að gera það aðeins fyrst að umtalsefni áður en ég vík aftur að almennri stöðu ríkisfjármála og trúnaðarmálunum miklu, m.a. vegna þess að ég sé að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur.

Það væri nú æskilegt, herra forseti, ef hæstv. félmrh. væri hér á slóðunum því ekki varðar það hæstv. félmrh. litlu hvernig sveitarfélögin í landinu standa.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að samkvæmt tölvunni sem hann hefur fyrir framan sig er hv. félmrh. reyndar nýgenginn úr húsi. En hæstv. fjmrh. er hér í hliðarherbergi og hæstv. heilbrrh. er hér líka.)

Kannski tölvan viti hvar hæstv. forsrh., nei, hæstv. fjmrh. er í húsinu líka? (Fjmrh.: Hér, hv. þm.) Jú, það er nú gott, hæstv. fjmrh. ... (Fjmrh.: Það hefur ekkert vantað upp á það í þessari umræðu.) Nei, það er gott. (Fjmrh.: Meira að segja hv. þm. hefur farið úr salnum. Hvar var hv. þm. þegar síðasta umræða var?) Ég var að mestu leyti hér í salnum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÍGP): Má forseti biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Ja, ég veit ekki hvort ætti að gefa hæstv. fjmrh. eitthvað. Það liggur eitthvað illa á honum, hæstv. ráðherranum.

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að fara aðeins yfir það hvernig staða sveitarfélaganna í landinu er og blasir við þeim um þessar mundir. Ég ætla líka í leiðinni að koma að stórbrotnu innleggi hv. þm. Kristjáns L. Möllers í umræðunni hér áðan sem birti alveg sérstaka hlið á metnaði þess hv. þm. í byggðamálum og landsbyggðarmálum sem hv. þm. kveður mikinn að eigin sögn, en fann hér hins vegar allt til foráttu tillöguflutningi þingmanna sem einmitt gengur út á að taka almennt á fjárhagsvanda sveitarfélaganna á landsbyggðinni og leysa hann. En það vill hv. þm. ekki sjá og hafði hin hörðustu orð um þá þingmenn sem slíkt hafa lagt hér til.

Staðreyndin er sú að fjölmörg sveitarfélög landsins eru við það að komast í gjörgæslu hjá félmrn. vegna skulda og erfiðleika í rekstri, ef ekki þegar komin þangað. Það liggur alveg fyrir. Þetta hefur átt við um mörg sveitarfélög á Vestfjörðum. Í reynd, herra forseti, hefði félmrn. átt að vera búið að taka að sér fjármál eða koma til aðstoðar verst stöddu sveitarfélögunum á Vestfjörðum fyrir mörgum missirum. En það brást í rauninni þeirri skyldu sinni og enginn vafi er á því að færa má fyrir því gild rök að réttur hafi verið brotinn á íbúum sumra sveitarfélaga sem hafa verið orðin svo illa stödd --- það á ekki bara við um Vestfirði --- að þau hafa ekki ráðið við að uppfylla skyldur sína á fullnægjandi hátt. Það er alveg skýrt í lögum og stjórnskipun landsins að ríkið ber ábyrgð á því.

Fjárhagur sveitarfélaga á ekki og má ekki lögum samkvæmt verða til þess að íbúarnir verði af lögboðinni þjónustu sem sveitarfélögin eiga að annast. Þá er ríkið bakábyrgt og á að koma til skjalanna. Þegar hættumerkin láta á sér kræla, þegar bjöllurnar fara að hringja, á að taka í taumana og þá á að koma sveitarfélögunum til aðstoðar. Þeim skyldum sínum hefur ríkisvaldið verið að bregðast vegna þess að það er augljóst mál að skulda- og greiðslustaða sumra sveitarfélaganna er orðin slík að borðleggjandi er að þau geta ekki með fullnægjandi hætti, þannig að þau séu með sæmilega óbundnar hendur til þess, uppfyllt skyldur sínar.

Eitt af því alvarlega í þessu sambandi eru gríðarlegar skuldir sem hvíla á herðum sveitarfélaganna vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis og innlausnarskyldunnar þar. Það eru nokkur ár síðan að lofað var að taka á þeim vanda með sveitarfélögum og stofnaður var viðlagasjóður viðbótarlána eða hvað það nú hét, lofað framlögum á fjárlögum í þann sjóð. En síðan hefur það allt verið svikið. Nefndir hafa verið að lulla í því að koma með einhverjar tillögur og svo gerist ekki neitt. Og einhver minnisblöð liggja og rykfalla í skúffum hæstv. ráðherra. Ein afleiðing af þessu hefur orðið sú að sveitarfélög hafa séð sig knúin til þess, neydd til þess, að selja eignir sínar sér þvert um geð í mörgum tilvikum.

Eða hverjum dettur í hug að sveitarfélög á Vestfjörðum hefðu selt frá sér Orkubú Vestfjarða eða væru að gera það, ágætis fyrirtæki sem tryggði fjórðungnum lægra orkuverð en öðrum svæðum á landsbyggðinni, sem var rekið með ágætri afkomu og var að skila eigendum sínum arði, hverjum dettur í hug að sveitarfélög á Vestfjörðum hefðu selt þetta frá sér og þar með afsalað sér möguleikum til að nota það fyrirtæki til að byggja upp annað atvinnulíf eða sækja fram í orkumálum ef þau hin sömu sveitarfélög hefðu ekki neyðst til þess? Engum. Það er algjörlega borðleggjandi.

Hér eru reiddar fram upplýsingar um að þeir sveitarstjórnarmenn í Skagafirði sem eru núna að beita sér fyrir sölu orkuveitunnar þar gera það nauðugir. Svo kemur hv. þm. Kristján Möller og telur það mikla ósvinnu að leggja hér til annars konar aðgerðir en þær einar að heimila sveitarfélögunum þetta og láta ríkið kaupa af þeim. (KLM: ... vilji stjórna sveitarfélögunum.) Láta ríkið kaupa af þeim. (KLM: Þú ert ekki kosinn til þess.) Nú ætti hv. þm. Kristján Möller að hafa hægt um sig (Gripið fram í.) því hv. þm. var m.a. að tala um það hér að við vildum með þessu stjórna sveitarfélögunum, það ætti að taka sjálfsákvörðunarréttinn af sveitarfélögunum. (KLM: Já, það viltu.) Felst hann í því að selja ríkinu, að ríkið sé skuldbundið til að kaupa? (Gripið fram í.) Og þegar það liggur fyrir að sveitarfélögin ... (Forseti hringir.) Ég skal sjá um hv. þm.

(Forseti (ÍGP): Má forseti biðja hv. þm. um að gefa ræðumanni hljóð.)

Það þarf enga hjálp þó ég sé forseta þakklátur fyrir velviljann, ég skal sjá um hv. þm. Kristján Möller. Ég get það hjálparlaust, held ég.

Felst þá sjálfræði sveitarfélaganna í því að fá að selja eignir sínar nauðugt á hnjánum í fjárhagsþrengingum? Væri ekki sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna betur borgið ef ríkið kæmi með eðlilegum hætti þeim til aðstoðar eins og lofað hefur verið og leysti með þeim fjárhagsvandann vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis? Væri það ekki betra, hv. þm.? Væri þá ekki meira eftir af sjálfsákvörðunarréttinum heldur en að birtingarform hans sé þetta sem hv. þm. styður, að þau séu neydd til að selja eignir sínar? Og sveitarstjórnarmenn vitna í blöðum og/eða opinberlega um að þeir geri þetta þvert um hug sér vegna þess að þetta séu nauðungarkostir.

Hv. þm. Kristján Möller var reyndar svo óheppinn hér áðan. Hann sagði: ,,... við neyddumst til að selja veituna okkar á Siglufirði ...`` Hann taldi það svo hafa verið hina bestu gjörð og komið vel út. En hann notaði orðin ,,neyddumst til að selja veituna``. Var það þá svo gleðilegt? Ég hef aldrei áður heyrt íslenskt mál notað á þennan hátt. Þegar menn neyðast til að gera eitthvað, þá hélt ég það væri nauðung, eitthvað sem væri mönnum þvert um geð, það væru afarkostir. Þannig skil ég íslensku. (KLM: ... söluna á ...).

Og auðvitað er það þannig, herra forseti, þegar menn eru settir upp við vegg, þegar mönnum eru allar bjargir bannaðar, eins og sveitarfélögin eru í þessari stöðu vegna þess að ríkið og löggjafinn hefur öll þeirra ráð í hendi sér, skammtar þeim tekjurnar og hefur gert það þannig, m.a. í tengslum við yfirfærslu verkefna, að sveitarfélögin eru út um allt á hnjánum, hafa hlaðið á sig skuldum og þegar stjórnvöld lyfta ekki litla fingri þeim til aðstoðar, hver er þá þrautalendingin? Jú, hún er þessi: Að selja eignir á meðan þær eru einhverjar til.

Gallinn er sá að það gengur hratt á þær og hann er líka sá að sum sveitarfélögin eiga bara alls ekki neitt til að selja. Þau eru ýmist þegar búin að því eða hafa aldrei myndað neinar eignir af þessu tagi, því mörg þeirra hafa um áratuga skeið verið kaupendur orku frá landsfyrirtækjum og aldrei átt nein eigin orkufyrirtæki eða veitur sem hafa myndað eignir og eiga ekki heldur hlutabréf í atvinnufyrirtækjum eða öðru slíku. Og þannig þekkjum við dæmin um mörg sveitarfélög. Með því að styðja nauðungarleiðina eru þessi sveitarfélög smátt og smátt skilin ein eftir algjörlega bjargarlaus og á vonarvöl, enda eru þau sum hver að reyna að flýja inn í einhverjar sameiningar sem auðvitað leysa ekki nokkurn skapaðan hlut því það er ekki mikil lausn fólgin í því að sameina tvo bjálfa og fá út einn aumingja, eins og maðurinn sagði hérna á árunum þegar tvö skuldug fyrirtæki skriðu saman og urðu svo gjaldþrota rétt eftir það.

Nei, það verður ekki svona, herra forseti, sem vandi landsbyggðarinnar verður leystur. Það er algjörlega á hreinu.

Ég held að hv. þm. Kristján Möller, þó hann langi mikið til að reyna að koma höggi á Vinstri græna, og löngun þingmannsins leynir sér ekkert í þeim efnum því hann fer í ótrúlegar skógarferðir til að reyna að snúa út úr og (Gripið fram í: Himintunglin.) koma með ... Já, ég skal taka þetta aðeins með himintunglin, hv. þm. Ég segi nú bara: Litlu verður Vöggur feginn. Fann hann ekki þar, hv. þm. Kristján Möller, mikið tilefni til að finna alveg sérstakan höggstað á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og draga upp þá mynd af þeim að það væru nú ljótu jólasveinarnir og vitleysingarnir á ferð þar sem væru þeir? Það er furðulegt að þjóðin skuli ekki vera sama sinnis og þessi bráðgáfaði þingmaður, Kristján Möller, sem hneykslast jafnóskaplega á því að stjórnmálaflokkur skuli hafa þá stefnu sem við höfum.

[16:15]

Við skulum aðeins fara yfir það sem hv. þingmaðurinn þarna vitnar til. Ég veit vel að það þýðir ekki að reyna að hafa hér málefnaleg orðaskipti við hv. þm. Kristján Möller. En vegna þingtíðindanna og annarra áheyrenda ætla ég að fara aðeins yfir þetta því það var hin ágætasta samþykkt sem hv. þm. var þarna að vitna til og ætti að fara yfir málið í heild sinni. Hún var um umhverfismál í þéttbýli. Þar var tekið á mörgum þáttum sem svo sannarlega er ástæða til að fara yfir.

Eitt af því sem nefnt var og er alveg hárrétt --- og ég er einlægur stuðningsmaður þess, enda studdi ég þessa ályktun að sjálfsögðu --- er það að menn mega gjarnan fara að huga að því, og það er löngu komið á dagskrá erlendis, þegar stór þéttbýlissvæði sem eru upplýst í myrkri myndast, að þar sé einhvers staðar skilið eitthvað eftir þannig að eitt af því sem menn geti notið séu svæði sem ekki eru upplýst, þ.e. að menn geti farið þangað og skoðað stjörnurnar og notið norðurljósanna eða hvað það nú er.

Þetta finnst mönnum alveg rosalega fyndið. Þarna fundu menn nú aldeilis málið til að ráðast á Vinstri græna. Þetta er nú meiri pólitíkin, maður, ha. Hugsið ykkur. Þetta er svona svipað og með fjallagrösin. Og kannski endar þetta á svipaðan hátt, þ.e. að þetta verður þeim mest til skammar sem sýna vanþekkingu sína og fordóma með því að reyna að gera umfjöllun um viðangsefni af þessu tagi hlægilega og auðvirðilega með útúrsnúningum af því tagi sem hv. þm. Kristján Möller ástundar hér.

Og er þetta þá svona alveg út í hött og fráleitt? Er nokkuð óskaplega vitlaust t.d. að við hugsum Heiðmörkina hér ofan við þéttbýlið sem svæði sem við höfum í huga að verja m.a. fyrir, við getum sagt, mengun af þessu tagi, sem þetta á vissan hátt er úr því flestum nálægum þjóðum hefur fyrir löngu orðið það ljóst að eitt af því sem menn glata með þéttbýlismyndun og upplýsingu í þessum skilningi --- ekki andlegri heldur ljósvænni --- er þetta. Og það var um þetta sem verið var að álykta. Mér finnst það bara gott og fínt að einhver vekur máls á þessu og það er auðvitað framsýnt. Ég skil vel að mönnum sem eru áratugum á eftir tímanum í umhverfismálum eins og hv. þm. Kristján Möller, gangi erfiðlega að höndla þetta. Þá bara fyrirgefum við það. En það er eins gott að einhverjir velti svona hlutum fyrir sér.

Umhverfismál í þéttbýli eru hlutur sem svo sannarlega þarf að koma hér betur á dagskrá. Menn hafa oft verið dálítið sofandi yfir því að það er nú ekki síst hér í þéttbýlinu og í kringum það sem mikilvægt er að vanda sig í umhverfismálum vegna þess að sambúð stórs hluta þeirra sem hér búa við umhverfið og náttúruna fer fram á þessu svæði og menn hafa ekki mikið tækifæri til þess annars staðar. En þeir geta skotist eitthvað út úr bænum um helgar á kvöldin, og þá er mikilvægt að slík svæði séu varðveitt, opin, ósnortin og óupplýst, t.d. til að taka sér kvöldgöngu og njóta norðurljósanna og horfa á stjörnurnar.

Um þetta snerist þetta mál og síðan má hv. þm. Kristján Möller mín vegna og mjög gjarnan upphefja sjálfan sig á sinn eigin hátt í stjórnmálum með því að hann haldi áfram að hamast á þessu. Það er í raun og veru alveg hið besta mál.

En ég er alveg viss um að aulafyndni af því tagi sem hv. þm. var hér að reyna að ástunda eða útúrsnúningar, nema ef vera skyldi þetta ofboðslega húmorsleysi, er hugsanlega skýringin á því að hv. þm. grípur þetta svona því það var ákveðinn gamansamur tónn í þessari ályktun. Það er alveg rétt. Reyndar var hlegið og menn höfðu gaman að því þegar verið var að afgreiða þetta á landsfundinum hjá okkur. En það var líka alvarlegur undirtónn í því og mönnum fannst það hið besta mál að afgreiða þetta.

En meira mun þurfa til en hv. þm. Kristján Möller og þetta mál til að klekkja eitthvað á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þó ég efist ekkert um löngun hv. þm. til þess. Hann hefur margopinberað hana.

Herra forseti. Það ber vel í veiði að hv. þm. og hæstv. forseti Halldór Blöndal er hér nálægur því ég ætlaði að gera trúnaðarmálið um 300 milljónirnar aðeins að umtalsefni, fara aðeins betur yfir það og m.a. þá atburði sem urðu í því máli í dag, sem í sjálfu sér gera það ekki miklu betra og sumpart verra.

Hér varð mikið upphlaup í gær sem eðlilegt er, herra forseti, og uppnám má segja í þinginu þegar þau fáheyrðu tíðindi spurðust að embættismaður í fjmrn. hefði í tölvupósti ... (Gripið fram í: Í forsætisráðuneytinu.) --- ég þakka --- í forsrn. hefði í tölvupósti hafnað ósk fjárln., ekki minni hlutans, heldur fjárln., hafnað beiðni sem sett var fram fyrir hönd fjárln. um að fá sundurliðun á því hvernig ráðstafa ætti þessum 300 millj. og/eða ef þeim hefði að einhverju leyti þegar verið ráðstafað, sem þetta sama forsrn. var að fara fram á að fá heimildir fyrir í fjáraukalögum. Og þá gerist sá fáheyrði atburður að þessi ágæti embættismaður synjar þessu og ber við trúnaðarskyldu samkvæmt upplýsingalögum á málefnum sem leynt geti þurft að fara af viðskiptaástæðum.

Og eins og þetta væri nú ekki nóg þá urðu þau ósköp ofan í kaupið að hæstv. forseti Alþingis hljóp þessari afstöðu til varnar og taldi þetta rétta niðurstöðu hjá forsrn. Það heyrðist ekkert í hæstv. fjmrh. enda er hann mjög upptekinn við lestur blaða, fornra. (Gripið fram í.) Ég var að segja að ekki hefði heyrst í hæstv. fjmrh. í þessari umræðu í gær. Ég saknaði þess nokkuð að hæstv. fjmrh., sem fer með fjármál ríkisins, eða svo á að heita nema þá að hæstv. forsrh. hafi yfirtekið það líka, blandaði sér í umræðurnar.

Svo ber við í dag, herra forseti, að forsrn. breytir um afstöðu. Það er sjálfsagt þessi sami embættismaður. Hann hefur átt fund með sjálfum sér í nótt, legið yfir þessu andvaka í nótt væntanlega og kemst að þeirri niðurstöðu undir hádegið, eða hvenær það nú var, að það kunni að vera hægt að reiða þessar upplýsingar fram enda verði farið með þær sem trúnaðarmál af hálfu fjárln.

Auðvitað er forsrn. með þessu, ef tala má fyrir hönd þess --- ef þetta er þá í nafni forsrn. sem mér er ekki ljóst því ekki var talað fyrir hönd þess í gær. Þetta var algjörlega ómarktækt plagg. Það var tölvupóstssending frá einum starfsmanni ráðuneytisins. Það var ekki formlegt ráðuneytisbréf og er það náttúrlega mikill galli því það væri kostur að fá á hreint hver sé afstaða ráðuneytisins, þ.e. forsrh., í þessu máli. En til þess að hún liggi fyrir þarf að tala fyrir hönd ráðuneytisins og það er ævinlega gert í umboði ráðherra eins og menn vita, þannig að þá kæmi það út á eitt.

Um þetta vil ég segja, herra forseti, að auðvitað er forsrn. eða embættismaðurinn að viðurkenna að afstaðan frá því í gær gekk ekki upp. Hún var út í hött enda svo gjörsamlega fráleit og fáheyrð að það hálfa væri nóg og er auðvelt að sýna fram á með dæmum að menn geta lagt niður fjárln. og hætt þessu rausi og afgreitt bara eina tölu til ríkisstjórnarinnar ef þessi hugsunarháttur nær fram að ganga almennt. Þá þarf nú ekki að vera sitja yfir þessum sparðatíningi í fjárln. Þá væru þetta bara blokktölur, í mesta falli sundurliðað á ráðuneytið og jafnvel ekki einu sinni. Af hverju ekki bara að láta Davíð fá 240 milljarða og síðan er það bara trúnaðarmál hvernig með það er farið. Það er næsti bær við þetta.

Auðvitað er það svo að sá sem náttúrlega er skilinn verst eftir í þessu, herra forseti, er hv. 1. þm. Norðurl. e., forseti þingsins, Halldór Blöndal, sem lenti út í því fúafeni að hlaupa til varnar þessari afstöðu embættismanns forsrn. í gær, sem hann er svo fallin frá í dag. Og þá á minn herra engan vin því einasti bandamaður forseta Alþingis í gjörvöllum heiminum í þessu máli, embættismaðurinn í forsrn., er hlaupinn frá honum líka. Meiri einsemd hef ég ekki lengi séð, herra forseti, í einu máli.

Ég ætla að vona að hæstv. forseti Alþngis sé þá umsnúinn líka og ætli ekki að halda til streitu þeim skilningi sínum og þeirri túlkun sem hann viðhafði hér gegn upplýsingarétti Alþingis, gegn eftirlitshlutverki fjárln., gegn stjórnarskrárvörðum rétti þingmanna til að krefja upplýsinga um opinber mál, þ.e. að eitt stykki embættismaður í forsrn. gæti bara gert þetta að engu. En sú var auðvitað túlkun forsetans.

Herra forseti. Aðeins frekar um þessar 300 millj. Er það virkilega ætlun manna hér að láta bjóða sér það að afgreiða þessar 300 millj. eins og í pottinn er búið, þegar búið er að neita þinginu um sundurgreiningu á því í hvað þetta fer? Það er auðvitað algjör fásinna. Formaður fjárln. ætti að sjá sóma sinn í því að flytja hér brtt. og leggja til að þessar 300 millj. fari út þangað til skýringarnar eru fengnar eða málið í heild sinni frestist á meðan. Þannig gætu menn sýnt hverjir ráða, hver hafi fjárveitingavaldið. Það er Alþingi.

Fjárveitingavaldið liggur ekki í gamla tukthúsinu við Lækjargötu. Þannig á það ekki að vera a.m.k.

Og hvað segir hæstv. fjmrh. um þessa uppákomu alla? Ætlar hann bara að þegja sig í gegnum málið? Telur hæstv. fjmrh. það vera þau samskipti framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins í kringum fjárlagagerðina sem sé til farsældar fallin, að einstök ráðuneyti taki sér réttinn til þess að ákveða hvort og þá hvernig þau afhenda einhverjar upplýsingar um ráðstöfun fjár af þessu tagi, að ráðuneytin sendi orðsendingar til Alþingis um að þau vanti t.d. 300 millj. í þessa einkavæðingu sem átti ekki að kosta nema 13, ef ég man rétt samkvæmt fjárlögunum og munar nú um minni skekkju en þetta, en brúki svo hortugheit þegar spurt er um í hvað þetta eigi að fara?

Tökum NATO-fundinn sem dæmi. Nú stendur til, ef fjárlög verða afgreidd eins og þau liggja fyrir eftir 2. umr., að utanrrh. hafi eina óskipta tölu upp á einar 260 millj. kr., ef ég man rétt, ef ekki meira á fjárlögum næsta árs til að setja í þennan NATO-fund. Er þá Alþingi að undirgangast það að um leið og hæstv. utanrrh. segir: ,,Ja, það voru einkaaðilar sem tóku að sér verkefnið þarna fyrir ráðuneytið og fengu greitt af þessum lið og þar með er ekki hægt að upplýsa hvernig honum var varið.``

Er það þetta sem menn eru að ganga inn í? Og er hæstv. fjmrh. á því að svona eigi þetta að vera, að við séum að færa frá Alþingi til ráðuneytanna réttinn til að skilgreina hvaða upplýsingar eigi að fara leynt af þessu tagi og hverfa yfir í að ráðuneytin ein hafi þá í höndum upplýsingar um nánari sundurliðun ríkisútgjaldanna, nema ef vera skyldi að þeim þóknist að afhenda fjárlaganefnd einhverjar upplýsingar og þá í trúnaði?

Þá er eftir eitt enn í þessu máli, herra forseti, og það er að fjárln. er ekki ein í salnum þegar greidd eru atkvæði um fjárlög eða fjáraukalög. Það erum við þingmenn allir. Það er ætlast til þess að við öll berum sameiginlega pólitíska ábyrgð á því sem þarna er afgreitt, þeir sem það styðja með sínu atkvæði. Og það er fjöldinn allur af þingmönnum sem hefur þá engar upplýsingar í höndunum. Ef menn undirgangast trúnaðarskylduna og þingmenn virða hana --- hún tekur þá væntanlega til annarra þingmanna, þ.e. að þetta eigi að vera trúnaður inni í þingnefndinni og mönnum sé ekki heimilt að skýra öðrum frá --- þá er ætlast til þess að afgangurinn af þinginu greiði atkvæði blankó um þessa hluti, hvort sem eru 300 millj. í dag eða 350 millj. á morgun.

Herra forseti. Þetta er auðvitað svo gjörsamlega út í hött að það nær ekki nokkurri átt. Það sjá allir menn. Þá brotnar allt niður sem heitir gagnsæi ríkisfjármálanna. Þá brotnar allt niður sem heitir eðlilegt aðhald að því hvernig ríkisfé er varið, í hvað það fer. Í reynd, eins og ég segi, væri þá hægt meira og minna að leggja niður vinnu fjárln. og Alþingi hyrfi þá bara yfir að því skipulagi að viðurkenna það sem hlutverk sitt eitt að afgreiða einhvern ramma og málið sé þannig búið.

Er einhver óróleiki, herra forseti, í þingsalnum? (HBl: Mér sýnist nú ræðumaðurinn hlaupa svolítið á súðum.) Mér heyrist virðulegur forseti vera í svipuðu skapi og í gær og það veit ekki á gott. (HBl: Forseti situr þarna í stólnum. ... Mér sýnist liggja vel á honum.) 1. þm. Norðurl. e. hefur ekki lært að skammast sín í nótt sem hefði nú verið hyggilegt af hv. þm. Halldóri Blöndal. (Gripið fram í.) Það hefði nú verið skynsamlegt af hv. þm. Halldóri Blöndal að vera frekar í betra skapi í dag og láta fara lítið fyrir sér eftir uppákomuna hér í gær og eftir það hversu einmana hann er í ljósi þess að forsrn. hefur nú skipt um skoðun og viðurkennt að sú afstaða sem hæstv. forseti hljóp til varnar hér í gær var tóm vitleysa. En auðvitað mega menn hýða sig með hrísi eins og þeim sýnist mín vegna og hv. þm. Halldór Blöndal, hæstv. forseti þingsins, má gera það.

[16:30]

Herra forseti. Ég held að það sé alveg sama hvernig maður nálgast þetta mál, þessi niðurstaða getur ekki staðið. Það breytir engu þó að svo kunni að fara í þessu tilviki að fjárln. taki eftir á --- eftir á --- við einhverjum útskýringum varðandi þennan 300 millj. kr. lið, það má ekki og getur ekki orðið fordæmi hér. Það er algjörlega borðleggjandi að þannig má það ekki vera. Það hljóta allir menn að sjá að þannig getur þetta ekki staðið.

Það er auðvitað þannig, herra forseti, að það verða að vera efnisleg rök fyrir því að trúnaður af þessu tagi þurfi að vera til staðar. Þau skortir algjörlega að mínu mati. Þetta er opinbert fé, þetta eru opinber verk og þar af leiðandi eiga þeir sem þau taka að sér að vera vel meðvitaðir um að sundurliðaðar upplýsingar um greiðslur komi til með að liggja fyrir. Þannig hefur það alltaf verið. Menn eru náttúrlega í grenjandi mótsögn hér við sjálfa sig vegna þess að það er alsiða að birta sundurliðaðar upplýsingar með nöfnum þeirra sem hafa þegið greiðslur frá ríkinu löngu eftir að þessi sömu upplýsingalög, þessi sömu lög um fjárreiður ríkisins og annað það sem menn eru hér að reyna að bera fyrir sig, komu til sögunnar. Þar má t.d. nefna svör við skriflegum fyrirspurnum um kostnað ríkisins vegna ráðgjafar, auglýsinga og annarra slíkra verkefna.

Þar hefur það stundum verið dregið fram í dagsljósið, herra forseti, að ráðuneytin hafi farið ansi frjálslega t.d. með útboðsreglur og stundum látið undan þeirri freistingu að semja við einstaka aðila og moka til þeirra verkefnum langt umfram það sem reglur gefa strangt til tekið tilefni til. Veitir þá af því, herra forseti, að einhvers staðar í þjóðfélaginu sé til staðar aðhald til að draga þessar upplýsingar fram?

Það er vel mögulegt að fjölmiðlar mundu staðnæmast við þennan þröskuld upplýsingalaganna sem þarna er beitt sem anti-upplýsingalögum, sem ó-upplýsingalögum, til að hindra það að upplýsingar komist út, en ekki til að tryggja þær, sem er þó megintilgangur þeirra laga. Það er sorgleg staðreynd, að menn hafa í miklu ríkari mæli reynt að nota þau í hina áttina.

En þá er Alþingi eftir. Ef fjölmiðlar hnjóta um þennan þröskuld og ná t.d. ekki út upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna af þessu tagi þá er Alþingi eftir. Þar á að vera fortakslaus réttur til að reiða fram upplýsingar um opinber málefni af þessu tagi. Allt annað er algjörlega fáránlegt, fær ekki staðist, mun leiða til ófarnaðar og er fordæmi sem má ekki verða. Ég trúi ekki öðru en að t.d. hæstv. fjmrh. sé þessu sammála. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. fjmrh. ætli að fara að ganga í lið með þeim öflum, sem vissulega hafa látið á sér kræla af og til upp á síðkastið, að reyna að sveipa þessa hluti meiri leyndarhjúp á Íslandi en þeir voru hér áður og auðvitað miklu meiri en nokkurs staðar annars staðar viðgengst, í löndum sem við berum okkur saman við, þar sem stjórnsýslan hefur alls staðar, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, verið að þróast í átt til meiri opnunar. Þar eru margvíslegar kröfur og reglur komnar til sögunnar þar sem menn þurfa í miklu meiri smáatriðum en áður var að gera grein fyrir fjárhagslegum málefnum, hvort sem það eru útgjöld eða gjafir sem þeir fá eða annað í þeim dúr.

Það væri fróðlegt fyrir menn, sem eru núna að velta þessu fyrir sér uppi á Íslandi, að skoða t.d. hversu strangar allar reglur eru orðnar á þjóðþingum og í kringum þjóðþing hinna Norðurlandanna um hvaðeina sem lýtur að opinberum fjárreiðum, um fríðindi, um ferðalög, hlunnindi, greiðslur, gjafir og annað slíkt sem þingmenn, ráðherrar og embættismenn og allir opinberir starfsmenn hljóta. Með tilliti til þess er það náttúrlega í svo hrópandi mótsögn, herra forseti, við allt þetta að hér uppi á Íslandi vaxi þeim öflum ásmegin sem reyna að beita upplýsingalögum til að koma á aukinni leynd. Það getur ekki gengið og fær ekki staðist, herra forseti.

Herra forseti. Mig langar að minnast á tvö, þrjú atriði hér í lokin úr efni sjálfs frumvarpsins. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., sem mögulega hefur hugsað sér að taka þátt í umræðunni hér einhvern tíma síðar í köld, þó að það liggi nú að vísu ekki fyrir. --- Ég get alveg beðið ef hæstv. fjmrh. vill skrifa niður spurninguna og sækja sér penna. --- Telur hæstv. fjmrh. eðlilegt að halda inni í fjárlagafrv., úr því að því skal breytt hér nokkrum dögum fyrir áramót, tekjum af eignasölu sem nokkuð ljóst virðist orðið að muni ekki skila sér á árinu? Hvað heitir það? Er það ekki vísvitandi að blekkja, er það ekki vísvitandi að ljúga saman fjárlögunum rétt áður en þau renna skeið sitt á enda, með afgangi sem ekki verður til staðar?

Hverjar eru líkurnar á því að tekjur vegna sölu Landssímans upp á milljarðatugi skili sér í ríkiskassann fyrir áramót þegar öll tímaáætlun um einkavæðingu þess fyrirtækis er hrunin til grunna? Eignasalan sem átti að fara fram í haust varð ekki nema svipur hjá sjón. Síminn gekk ekki út, almenningur neitaði að kaupa hann af sjálfum sér og gaf stefnu ríkisstjórnarinnar langt nef. Leitin mikla að einhverjum útlendingum sem vilja kaupa hann, til þess að það litla sem fáist nú fyrir Símann verði í gjaldeyrisformi, hefur ekki borið árangur enn þá. Það er búið að framlengja og ítrekað framlengja alla tímafresti í þeim efnum. Nú er kominn 4. desember og engar fréttir hafa enn borist af því að kaupandinn sé fundinn. Væntanlega er þá eitthvað eftir í að ganga frá málinu.

Væri það ekki ósköp einfaldlega raunsætt mat á aðstæðunum eins og þær blasa við öllum núna --- nema þá hæstv. fjmrh. --- að líta svo á að þessi áform séu runnin út í sandinn og fjárlögin verði þá væntanlega gerð upp með halla þegar upp verður staðið? Með þessu er engin fjármunamyndun lengur orðin í rekstri ríkissjóðs og fjárlögin á þeim grunni neikvæð.

Í öðru lagi, herra forseti, væri fróðlegt að heyra svör hæstv. fjmrh. við þessu með sölu jarðar Skógræktarinnar, jarðarinnar Straums hér sunnan við Hafnarfjörð. Það er ákaflega verðmætt land sem Skógræktin hefur átt og m.a. horft til sem svona ákveðinnar innstæðu sem menn ættu þar í handraðanum til að efla starfsemi stofnunarinnar og auka umsvif í skógrækt í landinu, enda eru flestar jarðeignir Skógræktarinnar meira og minna þannig til komnar. Þær eru langflestar gjafir til Skógræktarinnar sem menn hafa af hugsjónaástæðum gefið til að þær yrðu nýttar til að efla skógrækt í landinu.

Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig það stendur með jörðina Straum. Ég hygg að það sé þó þannig að hún sé ein af gjöfunum sem Skógræktin hefur fengið --- sú var tíðin að ég kunni eitthvað á þetta. Í því gjafabréfi er mjög líklega áskilnaður um að andvirðinu eða aðstöðunni á jörðinni verði ráðstafað til að efla skógrækt í landinu.

Geta menn lagst lægra, herra forseti, en svo að virða ekki einu sinni skilmála af þessu tagi, þegar menn arfleiða í þágu hugsjóna sinna einhverjum aðila eins og Skógrækt ríkisins eða stofnunum sem vinna að málefnum fatlaðra eða eitthvað í þeim dúr, svo önnur þekkt dæmi séu tekin, að virða ekki vilja gefendanna í þeim tilvikum? Er það virkilega svo að menn ætli að færa eitthvað af þessu söluandvirði yfir til annarra stofnana, hversu þarft og nauðsynlegt sem það kann að vera að taka á fjárhagsvanda þeirra? Ég geri ekkert lítið úr vanda þeirra en þetta er algjör óhæfa, herra forseti. Það á ekki að standa svona að málum. Menn minnka sig með þessu. Ég tala nú ekki um ósköpin ef þetta eru ekki nema tíu milljónir króna. Er það þess virði að brjóta gegn ákvæðum gjafabréfa? Þar fyrir utan þarf málaflokkurinn sem slíkur á þessu að halda og á ekki að líða fyrir að einhvers staðar annars staðar séu erfiðleikar af þessu tagi.

Það væri af tvennu illu miklu skárri svipur á því að láta Skógræktina þá fá þessa peninga en lækka til hennar fjárveitingarnar í staðinn. Að vísu væri það níðingslegt en það væri þó aðeins skárra en þetta, að taka söluandvirðið sjálft og eyrnamerkja hluta þess yfir til annarrar stofnunar, ef það er algjörlega á skjön við vilja í gjafabréfi og allt sem í sögunni liggur falið. Þetta er nú ekki beinlínis uppörvandi og hvetjandi fyrir fólk sem kynni að velta því fyrir sér nú um stundir að gera eitthvað svipað. Sem betur fer gerist það enn þá af og til að fólk lætur af hugsjónaástæðum ráðstafa eigum sínum til menntastofnana, til líknarstofnana eða til hugsjónaverkefna eins og landgræðslu og skógræktar. Það mega stjórnvöld ekki láta gerast að menn fái á tilfinninguna að þeir skuli nú fara varlega í það því að það sé alls ekkert víst að Alþingi eða meiri hluti þess líti svo á að það sé á nokkurn hátt skuldbundið til að virða skilmála gjafarinnar, en taki þó við gjöfinni, það hafa menn gert. Fylgir það ekki viðtöku slíkrar gjafar að menn eigi að uppfylla ákvæði af þessu tagi?

Herra forseti. Ég hefði gaman af því að heyra hæstv. fjmrh. fara hér einhverjum orðum, þó það megi auðvitað hugsa sér að ræða líka við 3. umr. fjárlaga, um almenna stöðu ríkissjóðs. Hún hefur náttúrlega þróast eins og raun ber vitni, úr þessum rómaða afgangi sem menn montuðu sig voðalega af hér í fyrra og hittiðfyrra og jafnvel fram á þetta ár, og yfir í það að nú er ríkissjóður í reynd rekinn með halla, ef ekki væri verið að ganga á eigur þjóðarinnar sem ríkið fer með fyrir hennar hönd. Það er nú allt og sumt.

Auðvitað geta menn lifað af því um stund ef þeir eru orðnir svo illa staddir að þeir þurfi að selja eigur sínar, en þá eiga menn að horfast í augu við það eins og það er. Reyndin er sú að það eru menn að gera og þær verða væntanlega ekki seldar nema einu sinni. Menn þurfa þá líka að átta sig á því hvað þeir ætli að gera þegar þær verða á þrotum.

Þannig væri betra, herra forseti, að þetta væri rætt á þessum nótum fremur en að þumbast hér við og ætla að loka þessu fjárlagafrv. endanlega með þessu fjáraukalagafrv. sem nú er til 3. umr., ég geri ekki ráð fyrir því að það verði fleiri fjáraukalög á þessu ári. Það yrði þá bara leiðréttingarfrumvarp sem flutt yrði á næsta ári eða nær það verður, að loka því svona, vitandi betur, a.m.k. hvað varðar eignasöluna. Væri nú ekki heiðarlegra að gera þetta þá þannig upp núna um áramótin að þetta færðist úr fjáraukalagafrv. og yfir í fjárlagafrv. næsta árs? Það er náttúrlega miklu líklegra að eitthvað af þessum tekjum skili sér á fyrstu mánuðum næsta árs og menn gætu þá gripið til þeirra þá og mundu þá bæta stöðuna sem því nemur, að þær skiluðu sér þá en ekki á þessu ári.