Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:49:05 (2421)

2001-12-04 16:49:05# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fróðlegt væri þá að vita hvers konar gjörningur dugar til að sölutekjurnar séu bókfærðar á árinu. Dugar einhvers konar viljayfirlýsing? Dugar það að fjmrh. finni einhvern til að setja stafina sína undir eitthvert blað fyrir áramót og þá sé hægt að líta svo á að þessu skilyrði sé fullnægt? Þá er það auðvitað einfaldlega eins og það er og blasir við.

Auðvitað er ljóst að ríkisstjórnin er á bullandi flótta með öll þessi mál. Þrátt fyrir allan fjárausturinn hefur ekkert gengið að selja hvorki Landssímann né Landsbankann. Þegar upp verður staðið verður sjálfsagt gat sem þessu nemur í fjárlögunum. Þá það.

Varðandi aftur skógræktarmálið og ráðstöfun söluandvirðis jarðarinnar Straums finnst mér það ekki vera eitthvað sem fjmrh. og landbrh. kokka á milli sín í einhverjum samningum þar sem landbrh. er auðvitað á hnjánum frammi fyrir fjmrh. til að fá einhverja aura til að laga stöðu stofnana sinna. Það á bara ekki að gerast þannig og það hefur ekkert gildi, hvorki gagnvart gjafabréfi né vilja Alþingis í þessum efnum þó að þessir ráðherrar hafi komist að einhverju samkomulagi úti í bæ.