Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:50:30 (2422)

2001-12-04 16:50:30# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Áður en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði ályktun Vinstri grænna gegn ljósastaurum í þéttbýli að umtalsefni og reifaði ýmis önnur mál ræddi hann einnig um miklar skuldir smærri sveitarfélaga og vakti athygli á því að sum þeirra yrðu að selja eignir sínar til að standa straum af þessari skuldaaukningu. Jafnframt kallaði hann eftir aðgerðum stjórnvalda. En það eru fleiri sveitarfélög en þau smærri sem safna skuldum og vil ég sérstaklega vekja athygli á slæmri skuldastöðu Reykjavíkurborgar, stærsta sveitarfélags á Íslandi. Þar hefur skuldsetningin verið gífurleg og hefur verið gripið til ýmissa örþrifaráða eins og þess að selja Perluna. Þar eru í forustu, eins og við vitum, fulltrúar R-listans, Vinstri grænna og Framsfl.

Mér þætti fróðlegt að heyra það úr þessum ræðustóli hvaða hugmyndir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur um hvernig stjórnvöld gætu komið Reykjavíkurborg til hjálpar í þeim mikla vanda sem blasir við borginni nú um stundir. Má kannski búast við tillögum í borgarstjórn Reykjavíkur frá fulltrúum Vinstri grænna þar, þeim sem kalla eftir aðgerðum stjórnvalda?