Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:24:47 (2432)

2001-12-04 17:24:47# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði talað algerlega skýrt áðan. Ég sagði að það væri skoðun mín, og ég er ekki einn um hana, að sveitarstjórnir t.d. á Vestfjörðum og í Skagafirði séu að taka þessar ákvarðanir nauðugar viljugar. Ég virði auðvitað rétt sveitarstjórnarmanna, verð fyrstur manna til þess og hef í málflutningi mínum verið talsmaður þess að efla völd og vægi sveitarstjórna. En það er engin samningsstaða hjá aðila sem er kominn út í horn peningalega og menn eru nauðugir að fara í þá lausn sem þeim er boðin, þá formúlu sem sett er upp. Þetta er nákvæmlega sama formúlan og sett er upp fyrir Vestfirðinga. Ég er andvígur formúlunni. En það segir ekki, ég held að það hafi komið skýrt fram í máli mínu, að við viljum ekki nota aðrar aðferðir. Við erum með tillöguflutning um að fyrsti milljarðurinn verði settur inn í þetta dæmi núna.

Ef menn væru ekki í þessari stöðu, þá væru sveitarstjórnarmenn örugglega alltaf að ræða um hvernig rekstri sveitarfélaga yrði best fyrir komið, en þeir sem eru komnir í neyð eru ekki að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Það er mergurinn málsins.