Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:28:42 (2434)

2001-12-04 17:28:42# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér í andsvari kemur hv. þm. Kristján Möller með þá gömlu frasa að við séum á móti öllu. Ég hélt að ég hefði talað sæmilega skýrt. Var ég ekki í öllum málflutningi mínum að benda á að við erum með aðra tillögu en hæstv. ríkisstjórn setur fram? Er maður á móti öllu ef maður vill fara aðrar leiðir? Það er alveg skýrt hvaða leið við viljum fara.

Ég hef greinilega heldur ekki, virðulegi forseti, komið helmingnum til skila þegar ég var að reyna að útskýra fyrir hv. þm. að uppsetning Rariks er þess eðlis, vegna þess að Rarik þjónar hinum dreifðu byggðum, að sá kostnaður við dreifbýlisveiturnar borgar sig ekki og svona aðgerðir leggjast á landsbyggðarfólkið. Þetta er himinklárt í öllum pappírum Rariks meira að segja.

Ef hv. þm. skilur það ekki að ekki er hægt eða a.m.k. mjög óheppilegt að hafa bæði mjöl í kjaftinum og blása, þá er erfitt að skýra þetta út. Svona uppsetning leiðir til þess að verið er að láta dreifbýlið borga lausnir fyrir dreifbýlið í krafti þess að fara í gegnum Rarik með dæmið. Það er himinklárt. Enginn efast um það. Það hefur enginn gagnrýnt þennan málflutning. Þess vegna viljum við að vandinn sé leystur með beinum framlögum úr ríkissjóði sem er þá þess eðlis að öll þjóðin taki á sig lausn vandamáls sem hún ber öll sameiginlega ábyrgð á. Það er mergurinn málsins. (Gripið fram í: Þú styður þá tillögu ...)

Hvað varðar lýsinguna á Alþingishúsinu, þá hef ég rætt um það við þann hæstv. forseta sem nú situr á forsetastóli að það væri við hæfi að við færum að dæmi þeirra dómkirkjumanna og settum nýmóðins fallega lýsingu á það hús.