Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:31:04 (2435)

2001-12-04 17:31:04# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr bara hv. þm. hvort honum finnist ekki svolítil forsjárhyggja í að skipta sér yfirleitt af því þó að sveitarstjórnin á þessu svæði telji hag sveitarfélagsins best borgið með þessum samningum. Í sjálfu sér er ekki hægt að jafna þessu við það sem gerðist á Vestfjörðum. Ég veit ekki til þess að ástæðan fyrir því að þessi rafveita sem hér um ræðir hafi verið seld vegna sömu vandamála og um var að ræða á Vestfjörðum. Niðurstöðu sveitarstjórnarmanna á þessum stað, að vilja fara í samninga við Rarik, tel ég að beri að virða. Mér finnst forsjárhyggjan keyra úr hófi þegar menn vilja stöðva slíkt.

Ég get hins vegar vel fallist á að það geti verið gagnrýnivert hvernig Rarik stjórnar sínum málum. Þá þurfa menn bara að fara yfir það út frá sjónarmiðum þess fyrirtækis. Ég hef ekki heyrt þau hér. Ég tel að menn séu að reyna að stjórna því fyrirtæki, a.m.k. með annað augað á þeirri framtíð sem menn ímynda sér að sé núna í raforkugeiranum og reyni að byggja það fyrirtæki upp með það í huga að það verði gjaldgengt og geti keppt við þau fyrirtæki sem verða á þeim markaði sem til stendur að skapa. En það er bara allt önnur umræða en hér fer fram.

Hér hafa þeir sem hafa talað fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð talað út frá þeim sjónarmiðum að það beri bókstaflega að koma í veg fyrir að sveitarstjórnarmenn geti tekið ákvarðanir sem þeir telja skynsamlegar í tilfellum eins og hér um ræðir.