Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:33:32 (2444)

2001-12-04 18:33:32# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Efnislega kom ekkert nýtt fram í þessu seinna andsvari hv. þm. Við erum sammála um nokkur atriði í byggðastefnu sem væri þannig að mundi þjóna öllum. Ég gagnrýni mjög, eins og ég hef sagt, svona jólasveinatillögur um að banna Rarik að kaupa Rafveitu Sauðárkróks, en í staðinn eigi það sveitarfélag að fá bara út um gluggann 300 millj., til þess að vera góðir strákar við sveitarfélagið Skagafjörð. (SJS: Þetta stendur hvergi.) Þetta stendur hér. Þá verða menn að leiðrétta það. Ég skal bara lesa það enn einu sinni, herra forseti. Það stendur hér á bls. 3 í nefndarálitinu:

,,Að mati 2. minni hluta væri miklu nær að ríkið léti þessa fjármuni ganga beint til sveitarfélagsins eða styddi það á annan hátt þannig að það héldi sinni veitu.``

Hvernig er hægt að lesa þetta öðruvísi en svo að þær 300 millj. sem eru umsamið samningsverð á veitunum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja stoppa og ekki láta ganga í gegn, hvernig á lesa þetta öðruvísi en að afhenda eigi þessar 300 millj. einu sveitarfélagi en ekki öðru? Þetta er þannig. Þetta stendur hér skýrt og skorinort. Það verður þá að koma fram leiðrétting ef þetta er einhver vitleysa.

En það hefur svo sem áður komið fram vitleysa í nefndarálitum sem ég ætla ekkert endilega að fara að ræða um hér hvernig hefur komið til --- þetta getur oft gerst --- og ræddum við það ekki alls fyrir löngu varðandi breytingartillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs út af öðrum málum. En það var leiðrétt sem mistök. En ég vil þá bara spyrja: Eru þetta mistök?

Grundvallaratriðið í mínum huga er, og skal það áréttað hér í lokin, herra forseti, að nauðsynlegt er að fara í aðgerðir gagnvart skuldsettum sveitarfélögum. Við deilum ekki um það. Deilan snýst um hvernig eigi að fara í það. Deilan snýst ekki um að fara eigi í aðgerðir í byggðamálum. Ekki er deila milli okkar um það. Okkur greinir á um leiðir. Það hefur komið skýrt fram og ég hef gagnrýnt það og hef kallað það handahófskenndar og ódýrar tillögur að leggja til milljarð hér og milljarð þar.