Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:38:01 (2446)

2001-12-04 18:38:01# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mín umræða hér um þetta mál hefur ekkert snúist um það að klekkja á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, síður en svo. Ég held að aðrir geti gert það. Hins vegar hef ég vitnað í nokkur atriði sem mér finnst vera alveg á skjön við það sem hér hefur komið fram.

Málið er einfaldlega þannig að meiri hluti sveitarstjórnar Skagafjarðar hefur ákveðið að selja dreifikerfi Rafveitu Sauðárkróks. Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, með samþykki ríkisstjórnar, hefur ákveðið að kaupa og vill kaupa. Um það snýst málið. Þessa ákvörðun réttkjörins stjórnvalds norður í Skagafirði ber okkur að virða. Og þá eigum við á hinu háa Alþingi ekki að segja: ,,Nei. Sveitarstjórnarmenn í Skagafirði, þið eruð á rangri leið. Við teljum að þið eigið að gera þetta öðruvísi. Geymið þetta og hættið við að selja.`` Þannig finnst mér skilaboðin vera frá Vinstri grænum. Það er nú svo.

Í umræðunni um Rarik verð ég eiginlega að rifja svolítið upp frá því við Siglfirðingar seldum okkar veitur. Ég man t.d. eftir því að Hveragerði hefur selt sitt og Rarik keypt. Það hefur verið gert með samkomulagi. Menn hafa orðið ásáttir um verð og annað slíkt. Eitthvað hefur sennilega gerst í millitíðinni, og svo þetta núna. Grundvallaratriðið í mínum huga er bara þetta. Það vil ég segja við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Svo geta menn alveg haft skoðanir á því hvort þetta er vitlaust eða ekki og mér finnst ekki skipta veigamiklu máli hvort deilur séu heima í héraði eða ekki. Ég tel hins vegar að það hefði verið ákaflega gott ef sveitarstjórn Skagafjarðar hefði öll verið sammála um þessi atriði og hefði náð sátt um þau eins og okkur tókst á Siglufirði.

Grundvallaratriðið er að menn hafa ákveðið að selja. Aðili vill kaupa. Sátt er um verð. Því eigum við á hinu háa Alþingi ekki að setja okkur á háan hest og segja: ,,Nei. Þið þarna sveitarstjórnarmenn úti á landi eruð á vitlausri leið.``