Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 19:17:12 (2453)

2001-12-04 19:17:12# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[19:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Loksins fæst þó örlítill snefill af efnislegu svari vegna þeirra mála sem hér hafa verið á ferðinni. Hæstv. fjmrh. lætur að því liggja að ekki sé búið að ganga frá þessum samningum. Ég hélt satt að segja að menn væru komnir mun lengra en svo. Á ekki að taka afstöðu til kjölfestufjárfesta í Landssímanum á föstudaginn? Er þetta ekki allt að bresta á á næstu dögum? Ég trúi því tæplega að ekki sé búið að ganga frá samningum við sérfræðinga sem eiga að aðstoða ríkisvaldið við sölu á þessum lykileignum ríkissjóðs, ég neita bara að trúa því.

Ég vil hins vegar minna á það, ég hlýt þá að gagnálykta og líta svo á, að um leið og frá þessum samningum hefur verið gengið þá falli þessi kvöð á hinum meintu viðskiptaleyndarmálum niður og þá muni ekki standa á upplýsingum um við hverja hefur verið samið og á hvaða verði þessi þjónusta hefur verið keypt.

Ég árétta það að hæstv. fjmrh. hefur svarað sviplíkum fyrirspurnum hér allítarlega og tíundað þau fyrirtæki sem hafa veitt álíka þjónustu og greitt hefur verið fyrir. Á því hefur ekki staðið. Ég rifja það líka upp að forveri hans á stóli fjmrh., raunar einnig forveri hans sem varaformaður Sjálfstfl., spurði nákvæmlega um álíka mál hér, þá var hann þingmaður stjórnarandstöðunnar, á árinu 1989. Hann spurði þáv. forsrh., Steingrím Hermannsson, og fékk auðvitað nákvæm svör, sundurliðuð. Þá voru engin viðskiptaleyndarmál á ferðinni og ég fæ ekki annað séð en að ef þessi svör berast ekki alþingismönnum áður en til afgreiðslu þessa máls kemur þá hafi orðið hér einhver undarleg stefnubreyting sem ég kann engin skil á.