Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:28:59 (2460)

2001-12-04 21:28:59# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:28]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna skemmtileg spurning frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.

Það er hins vegar eðlilegt áður en ég fer að reikna þríliðuna fyrir hv. þm. að upplýsa að það sem hann sagði að við hefðum fengið á fundinum í kvöld og í bréfi frá forsrn. lá allt saman fyrir áður, það sem hann nefndi. Við vorum áður búnir að fá upplýsingar um hvaða fyrirtæki ætti að selja. Við vorum áður búnir að fá upplýsingar um hvaða aðilar það væru sem ættu að fá þessar 300 millj. Það sem við vorum að biðja um var sundurliðun á þessu. Og ef allt er svona óvisst, hv. þm., þ.e. hvað verður selt og hvert söluandvirðið verður, hvernig stendur þá á því að forsrn. gat fundið þessa merku tölu 300 millj.? Eitthvað hefur þar staðið að baki. Einnig liggur fyrir í fjáraukalagafrv. að gert er ráð fyrir að söluhagnaðurinn verði rúmir 20 milljarðar. Það ætti því ekki að vera vandamál ef búið er að ganga til samninga við öll þessi fyrirtæki að upplýsa fjárln. um hvaða prósentutölur það eru sem eiga að renna til hvers fyrirtækis, ef það er þannig, hv. þm. hefur sagt að hann hafi þær upplýsingar að það séu einhverjar prósentur, þá hlýtur að vera í lagi að láta fjárln. vita hvaða prósentur hér eiga í hlut þannig að menn geti þá leikið sér a.m.k. með dæmið út frá þeim tölum sem eru í fjáraukalagafrv. og skipt þessu niður á aðila út frá þeim prósentum sem hv. þm. líklega veit hverjar eru. Það væri auðvitað mjög fróðlegt ef hv. þm. mundi upplýsa okkur um það hvaða prósentur hér eiga í hlut og telja upp fyrirtækin og gefa prósenturnar við hvert. Þá væri nú trúlega komið megnið af þeim upplýsingum sem við höfum verið að biðja um, hv. þm.