Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:36:48 (2464)

2001-12-04 21:36:48# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mig langar að fara hér nokkrum orðum um þann málflutning sem dunið hefur yfir okkur í dag varðandi ráðstöfun sölutekna hér, fyrst aðeins einni eign en síðan af annarri nú eftir kvöldmat. Það er að sjálfsögðu verið að gera hér úlfalda úr mýflugu eins og venjulega, gera veður út af engu, gera hluti tortryggilega sem eru ekki tortryggilegir og reyna að kasta ryki í augun á fólki varðandi heimildir um ráðstöfun sölutekna af tilteknum eignum ríkisins.

Förum aðeins yfir þetta mál. Það veitir sennilega ekki af, ég heyri það. Fyrst varðandi ráðstöfun söluhagnaðar af hlutabréfum ríkissjóðs í Stofnfiski hf. Leyfist mér að vitna í fjárlög ársins í ár, herra forseti? Það er 7. gr., liður 5.4. Þar segir að fjmrh. sé heimilt:

,,... að selja hlutabréf ríkissjóðs í Stofnfiski hf. og verja andvirðinu til greiðslu skulda Laxeldisstöðvar ríkisins við Endurlán ríkisins og til sérstakra rekstrarlána fiskeldisfyrirtækja.``

Nú er það niðurstaða manna að ekki sé skynsamlegt að verja andvirði hlutafjár til rekstrarlána á sviði fiskeldis. Þess vegna verður það ekki gert. Ég leyfi mér að segja að það sé ekki bara óskynsamlegt, ég tel að það sé heimskulegt. Þess vegna hefur orðið niðurstaða í því máli að fá þessari ráðstöfunarheimild breytt. Hvernig er það gert? Jú, það er flutt breytingartillaga hér í Alþingi. Og hv. þm. Einar Már Sigurðarson var að vitna í hana áðan.

Þá er gert ráð fyrir því að seinni ráðstöfunarheimildin til sérstakra rekstrarlána fiskeldisfyrirtækja verði felld brott. Hvað stendur þá eftir? Að verja andvirðinu til greiðslu skulda Laxeldisstöðvar ríkisins við Endurlán ríkisins, gera það upp sem þar er óuppgert. Þar er hins vegar um að ræða tiltölulega litla skuld þannig að nettóniðurstaðan úr þessu máli er sú að söluhagnaðurinn er mun meiri en því nemur. En til að vera ekki bundnir af því að ráðstafa andvirðinu í einhver vitleysisleg rekstrarlán fiskeldisfyrirtækja var það niðurstaða okkar landbrh. að nota hluta af þessu andvirði til að leysa önnur vandamál í landbúnaðargeiranum. (ÖS: Fjósið á Hvanneyri?) Og ... (Gripið fram í: Er nokkuð heimskulegt í gangi núna?) niðurstaðan er þá sú að leysa ákveðinn uppsafnaðan vanda í landbúnaðarháskólunum. Það er gott að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skemmtir sér vel vegna þess að hann þekkir til rekstrarlána fiskeldisfyrirtækja og er örugglega sammála okkur um að gott sé að kasta þeim hér út. En við ætluðum að nota ákveðinn hluta þessa hagnaðar til að leysa uppsafnaðan vanda, bæði varðandi Hólaskóla og skólann á Hvanneyri.

Í raun og veru er ekkert að gerast hér annað en að andvirði eignar sem er seld rennur í ríkissjóð. Og síðan eru bara veittar nýjar fjárveitingar. Eitthvað fleira sem þingmaðurinn vill bæta hér við? (Gripið fram í.) Hv. þm. situr hér og segir hallelúja á eftir öllu sem ég segi. Það er út af fyrir sig mjög gott.

En það er ekkert annað sem er að gerast þarna og í raun og veru er óþarfi að vera að tengja þetta endilega Stofnfiski. Það er samt ekkert athugavert við að skýra það í þeim tillögum sem fylgja brtt. nefndarinnar og koma frá ríkisstjórninni. Það er allt í lagi að skýra það að ástæðan fyrir því að allt í einu er farið í að leysa vanda landbúnaðarháskólanna, annars vegar á Hólum sem hv. þm. Jón Bjarnason þekkir vel og hins vegar á Hvanneyri, er sú að ný verðmæti verða til á verksviði landbrn. Það var ákveðið að nota tækifærið og ganga í að leysa þarna vissan vanda. Ég hefði haldið að menn mundu kannski frekar fagna því en að gera athugasemdir.

Þetta er bara skýring á því hvers vegna allt í einu eru komnar fjárveitingar í þessa skóla sem hafa átt við mikinn vanda að stríða og við höfum ekki viljað taka á fyrr en ljóst væri að framtíðarvandi þeirra yrði líka leystur. Og það hangir á spýtunni hér að nú verða skólarnir að taka sig á hvað það varðar.

En það þarf auðvitað ekki, eins og hv. þm. var að gefa í skyn, að afla einhverrar nýrrar ráðstöfunarheimildar með 7. gr. fjárlaga til að geta gert þetta vegna þess að það er bara andvirði sem rennur í ríkissjóð og svo er ný fjárveiting veitt til þessara hluta.

Og auðvitað er alveg það sama með jörðina Straum sem getið er um í 7. gr. fjárlaga yfirstandandi árs, heimildargreininni þar nr. 4.47, en þar segir:

,,Fjármálaráðherra er heimilt að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Straumi í Hafnarfirði.``

Það sem gerðist í síðustu viku var það að ákveðinn hluti af þessari jörð var seldur fyrir það andvirði sem hér hefur margoft verið nefnt og ákveðið hefur verið að verja megninu af því í þágu Skógræktar ríkisins. Hins vegar er það auðvitað í formi almennrar fjárveitingar alveg eins og framlagið til Garðyrkjuskólans, og í raun og veru má segja að það hafi verið algjör óþarfi að vera með einhverjar útskýringar á því að þetta garðyrkjuskólaframlag kæmi endilega af þessum peningum vegna þess að þetta blandast allt í einum potti í ríkissjóði. En það er gert til þess að menn glöggvi sig á því af hverju allt í einu núna er farið í að leysa vanda þessarar stofnunar í landbrn. Útúrsnúningar hv. þm. um ummæli mín hér um skógræktarrannsóknir og Garðyrkjuskólann missa algjörlega marks þegar haft er í huga að þetta er auðvitað náskyld starfsemi og það er bara verið að nota tækifærið vegna þess að þarna kemur inn söluandvirði, og ekki bara til að leysa vandamál Skógræktar ríkisins sem eru ærin að því er reksturinn varðar heldur líka Garðyrkjuskólans.

Ef þingmaðurinn vildi vera sjálfum sér samkvæmur ætti hann að gagnrýna að allt söluandvirðið skyldi ekki vera sett í einu, 102 millj. mínus sölukostnaður, í Skógrækt ríkisins. En það var ekki gert heldur höfum við landbrh., bæði varðandi Skógrækt ríkisins en einnig varðandi Hvanneyri og Hóla, gert sérstakt samkomulag um það hvernig eigi að ráðstafa þessum peningum með fjárveitingum á nokkrum árum. Í millitíðinni liggur mismunurinn í ríkissjóði. Þetta vita allir menn sem komið hafa nálægt þessum málum og við þetta er ekkert athugavert, bara engan veginn. Þvert á móti er það mjög jákvætt og fínt að hægt skuli vera að taka á þessum málum. Og þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson verður kominn í nýja fjósið á Hvanneyri sem verður sjálfsagt reist á næstu árum veit ég að hann verður mjög glaður yfir starfseminni sem þar fer fram. (Gripið fram í: ... ráðsmaður þar?) Það gæti endað með því já, það gæti sennilega endað með því. (Félmrh.: Nei, það hugsa ég ekki.) --- sagði félmrh. sem þekkir vel til í fjósum.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þetta komi fram, herra forseti, auk þess sem ég vil bæta því við sem ég sagði áðan í andsvari að ég hef í höndunum ljósrit af afsalinu sem liggur til grundvallar því að Skógrækt ríkisins er eigandi þessarar jarðar eða að ákveðnum hluta hennar. Og það er ákveðinn aðili sem árið 1949 afsalar þessari jörð til ríkisins, þ.e. til Skógræktar ríkisins sem er auðvitað A-hluta stofnun, ríkisaðili í A-hluta, og getur ekki selt eða ráðstafað þessari eign nema í gegnum ríkissjóð og þess vegna er það fjmrh. sem hefur þessa söluheimild og hún var auðvitað nýtt í samráði við landbrh. og í grundvallaratriðum í þágu Skógræktarinnar. En í afsalinu sem liggur þessu öllu saman til grundvallar stendur, eins og ég las upp hér áðan, að eigninni er afsalað til Skógræktar ríkisins með ,,gögnum og gæðum og án allra kvaða. Með öðrum orðum, ef eignin er seld rennur andvirðið í ríkissjóð og þá er það í sjálfu sér formlega séð ákvörðun Alþingis hvernig andvirðinu er ráðstafað.

Ég er hins vegar sammála mönnum um það sem haldið hefur verið fram í landbrn. að eðlilegt sé að andvirði slíkrar jarðar, sem hefur verið gefin Skógrækt ríkisins, renni til Skógræktarinnar eða almennrar skógræktarstarfsemi í landinu í aðalatriðum. Ég tel að fullkomlega eðlilegt sé að leysa jafnframt vanda Garðyrkjuskólans af þessu tilefni.

Þetta er allt málið, hv. þingmenn. Ekki er það sérstaklega flókið eða sérstök ástæða til að gera það tortryggilegt. Og ef við hefðum ekki verið svo vænir, við landbrh., að geta þess sérstaklega með skýringum, bæði að því er varðar Stofnfisk og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og skólann á Hólum og svo að því er varðar Garðyrkjuskólann, að þetta væri í tengslum við þessa sölu heldur látið andvirði þeirra bara renna í ríkissjóð, þá hefði þetta ekki orðið að neinu máli. Þá hefði hv. þm. Einar Már Sigurðarson ekki spurt neitt út í þetta og sjálfsagt ekki einu sinni tekið eftir því að minna af sölupeningunum er látið renna í Skógrækt ríkisins á þessu ári heldur en nemur öllu söluandvirðinu þó að þetta skili sér á nokkrum árum.

Ég vona, hv. þingmenn, að þetta skýri málið. Hér hefur verið gert mikið veður út af engu en ég tek undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að heimildargreinin að því er varðar söluna á Skólabrú 2 --- þar er um að ræða ákveðna leiðréttingu sem við urðum sammála um við 1. umr. að hefði vantað inn í frv. þá. Ég gat þess þá að það væru mín mistök. Þau eru hér með leiðrétt. Að öðru leyti mundi ég mæla með því að við létum þetta tal niður falla.