Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:50:14 (2467)

2001-12-04 21:50:14# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:50]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera hér örfáar athugasemdir við ræðu hæstv. fjmrh. Ég vona að að megninu til sé bara um misskilning að ræða á milli okkar, það hefur reyndar einstaka sinnum gerst áður. Venjulega hefur tekist býsna vel að leiðrétta slíkt.

Athugasemdir mínar voru út af fyrir sig ekkert síður þær að hér væri í raun jafnvel um óþarfa að ræða, að tengja t.d. Hólaskóla og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri við söluhagnað Stofnfisks. Greinin stæði þá alveg fyllilega út af fyrir sig ef svo væri. Þess vegna væri auðvitað nær að fella það út þannig að þetta verði ekki tengt saman. Það væri miklu eðlilegra að segja að tekið yrði á rekstrarvanda þessara stofnana á þennan hátt, án þess að tengja það nokkuð við Stofnfisk.

Hefðin er auðvitað sú að í 7. gr. fjárlaga er yfirleitt gerð grein fyrir því ef ætlunin er að ráðstafa söluhagnaði til ákveðinna verkefna. Þess vegna, þó ekki væri nema til að halda stílnum, hefði verið eðlilegt að taka þetta inn í 7. gr. eða sleppa þessum skýringum ella.

Ég get alveg fallist á það með hæstv. fjmrh. að það er auðvitað einfaldara að fella þetta bara út úr skýringunum. En ég er því miður hræddur um, herra forseti, að við eigum svolítið erfitt með að taka það út, úr því sem komið er.

Ég vil því bara leggja áherslu á orð hæstv. fjmrh. um að það sé óþarfi að hafa þetta inni. Við ættum þá í raun að líta fram hjá því, þannig að þetta sé bara úr ríkissjóði og að söluandvirði Stofnfisks, að öðru leyti en því sem ráðstafað er skv. 7. gr., renni í ríkissjóð.

Hins vegar, herra forseti, þar sem ég sé að tími minn er að renna út í fyrra andsvari, mun ég geyma Straum til seinna andsvars en hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvað hafi breyst varðandi ráðstöfun til rekstrarlána í laxeldi frá því sem gert var ráð fyrir í fyrra. Hvað hefur breyst í þeim efnum á árinu sem liðið er síðan? Eða var þetta jafnheimskulegt þá eins og hæstv. ráðherra lýsir því nú?