Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:53:28 (2469)

2001-12-04 21:53:28# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:53]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki verið að kvarta yfir því að upplýsingarnar skuli koma frá ríkisstjórninni. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að það hefur nokkuð verið rætt um það, bæði í gær og í dag, að nokkuð hafi skort á upplýsingar. En hér er ekki verið að kvarta yfir því að þær séu of miklar heldur er það lágmarkskrafa að samræmi sé í upplýsingunum þannig að hlutirnir passi saman. Það er nú lykilatriði að það sé ekki handahófskennt hvaða upplýsingar eru gefnar, hvenær og hvernig.

Varðandi seinna málið sem hæstv. fjmrh. ræddi um, þ.e. sölu á jörðinni Straumi í Hafnarfirði þá vakti ég sérstaka athygli á því og vil ítreka það, að hæstv. ráðherra vék engu orði að því sem ég vitnaði til, þ.e. þegar hæstv. heilbrrh., þáv. formaður fjárln., gaf ákveðnar skýringar hér í þingsalnum. Ég lagði höfuðáherslu á að afar brýnt væri að þegar formaður fjárln. gefur yfirlýsingar fyrir hönd meiri hluta fjárln. þá eigi þær yfirlýsingar að standa. Þannig að þó að skipt sé um formann í fjárln. þá verða ekki orð fyrrv. formanns orðin dauð og ómerk þar með.

Slík orð hljóta að standa. Þess vegna, herra forseti, ítreka ég að tillaga mín um lausn á þessu máli er fyrst og fremst sett fram til að tryggja að við getum treyst því að þegar formaður fjárln. kemur hér í þingsalinn og talar fyrir munn meiri hluta fjárln. eða allrar nefndarinnar þá standi þær yfirlýsingar a.m.k. árið, þannig að hægt verði að taka mark á því sem hv. þingmenn sem eru í forsvari fyrir fjárln. segja hér í þingsalnum.