Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:59:01 (2472)

2001-12-04 21:59:01# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta andsvar útskýrir eiginlega enn betur þann misskilning sem hér er á ferðinni. Við hefðum auðvitað alveg eins getað tengt Garðyrkjuskólann og framlagið til hans sölunni á hlutabréfunum í Stofnfiski. Við hefðum í öðru lagi getað veitt þetta fé án þess að tengja það með nokkrum hætti við þá sölu sem hér er um að ræða á Stofnfiski og Straumi.

En til þess að gefa fólki hugmynd um tilefni þess að nú er tækifæri til að leysa vandann hjá þessum stofnunum þá eru gefnar þessar skýringar. Þetta er ekkert flókið. Það er ekki verið að hlunnfara Skógrækt ríkisins og það er auðvitað alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að aðilar í A-hluta ríkissjóðs hafa ekki sjálfstæðan fjárhag með þeim hætti að þeir geti ráðstafað eignum og skuldum, tekjum og gjöldum, eins og venjuleg fyrirtæki. Það er bara ekki þannig. Þegar fólk er að gefa Skógræktinni eða öðrum ríkisstofnunum eignir þá er það að gefa ríkinu eignir, ríkissjóði. Auðvitað er eðlilegt að taka tillit til þess, þegar eignunum er ráðstafað þó að umliðin séu meira en 50 ár, hver var vilji gefandans. Það er alveg sjálfsagt og það er líka gert.

Ég tel að hér sé verið að ráðstafa þessu andvirði, og muni verða gert á næstu árum í þágu skógræktarstarfsemi í landinu, bæði beint í gegnum Skógrækt ríkisins en einnig óbeint í gegnum þá ráðstöfun sem hér hefur verið gerð grein fyrir.