Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 22:00:48 (2473)

2001-12-04 22:00:48# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir auðvitað máli fyrir þá sem ætla sér að gefa og hafa gefið eignir til ríkisins og hafa tilnefnt ákveðnar stofnanir til að varðveita þær eignir, að eignirnar nýtist eins og til var ætlast. Afsalið að jörðinni er til Skógræktar ríkisins. Mér finnst það vera ákveðið siðferði og siðferðiskennd sem segir okkur að við eigum að virða vilja gefendanna og að þeir sem bera velvilja til ákveðinna verkefna eða stofnana eiga að geta treyst því að fjármunirnir fari í viðkomandi verkefni. Þess vegna skiptir kannski mestu máli þegar upp er staðið að andvirði jarðarinnar renni til Skógræktar ríkisins.

Ég held að okkur sé það öllum ljóst að Skógrækt ríkisins getur ekki selt jörðina og ráðstafað fjármagninu að eigin geðþótta, andvirði sölunnar fer auðvitað í gegnum ríkissjóð.

En það skiptir máli að upphæðin, andvirði sölunnar fari óskipt til skógræktar.