Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 22:04:26 (2475)

2001-12-04 22:04:26# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[22:04]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Í frv. til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir til 3. umr. er undir lið forsrn. farið fram á 300 millj. kr. aukafjárveitingu vegna einkavæðingarverkefna. Farið er fram á þetta á fjáraukalögum. Á fjárlögum þessa árs sem samþykkt voru fyrir ári eru að mig minnir milli 15 og 16 millj. kr. sem ætlað var til slíkra verkefnia, til einkavæðingarverkefna.

Þegar sótt er um á fjáraukalögum þá er það vegna verkefna sem eru skyndileg og brýn og geta ekki beðið afgreiðslu reglulegra fjárlaga.

Herra forseti. Það hafði þegar verið gert ráð fyrir því að beita sér fyrir sölu á Landssímanum og Búnaðarbankanum á þessu ári þannig að þau verkefni voru svo sem nokkuð ljós fyrir en engu að síður er farið fram á beiðni á fjáraukalögum upp á 300 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við einkavæðingarferil á ákveðnum fyrirtækjum í eigu ríkisins, almannaþjónustufyrirtækinu Landssímanum og bönkunum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

Að mínu mati er það andstætt hagsmunum þjóðarinnar að selja Landssímann, enda sýndi þjóðin hug sinn í verki og hafnaði því að kaupa hlutabréf í honum af sjálfri sér nú á haustdögum. Það hefði svo sem verið réttast í því ljósi að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar, Framsfl. og Sjálfstfl., hefðu séð að sér og áttað sig á því hverja villu þeir voru þar að fara að ætla sér að selja Landssímann og eignarhald hans helst úr landi. Að mínu mati er það andstætt hagsmunum þjóðarinnar og hefði átt að hætta við hana í haust.

Auk þess, herra forseti, er ljóst að viðskiptaumhverfi um þessar mundir er þannig að ekki er mjög fýsilegt að vera að reyna að selja dýrmætar eignir þjóðarinnar vegna ótryggs efnahagsástands víða í heiminum og því litlar líkur til þess að þau fyrirtæki geti selst á viðunandi verði. En það er aftur á móti annað mál.

Engu að síður, herra forseti, þótti fjárln. rétt þegar hún stóð frammi fyrir þessari fjáraukalagabeiðni upp á 300 millj. kr. til einkavæðingarverkefna, sléttar 300 millj. kr., að óska eftir greinargerð og sundurliðun kostnaðar sem stæði að baki þessari fjárlagabeiðni, sem er í hæsta máta eðlilegt og fjárln. gerir og vinnur verk sitt vel og samviskulega eins og hún hefur tök á að afla upplýsinga um hvað standi að baki slíkum beiðnum.

Svör frá forsrn. komu seint og eftir ítrekun. Það var fyrst í gær, eftir að frv. til fjáraukalaga hafði verið afgreitt úr nefnd, að svar kom. Með leyfi forseta, stendur í svarinu:

,,Upplýsingar um endurgjald til einstakra viðsemjenda varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er skylt að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum, ef hann er til þess fallinn að skaða þá hagsmuni, sem í húfi eru. Í því felst þá jafnframt að slíkar upplýsingar eru undirorpnar þagnarskyldu af hálfu stjórnvalda að viðlagðri ábyrgð. Á þeim grundvelli hefur ráðuneytið jafnframt heitið viðsemjendum sínum að gæta trúnaðar við meðferð þeirra. Þar eð sambærileg þagnarskylda hvílir ekki á þingmönnum eða þingnefndum telur ráðuneytið því ekki fært að veita nánari upplýsingar um það hvernig framangeind fjárhæð skiptist milli einstakra viðsemjenda.``

Þessu svari og slíku viðhorfi hefur verið harðlega mótmælt hér á Alþingi og því var einnig mótmælt í fjárln. Á grundvelli þeirra umræðna sem fóru fram í fjárln. og á Alþingi í gær var haldinn fundur í fjárln. þar sem farið var yfir málið og ítrekað óskað eftir svari frá forsrn. Forsrn. fór áfram fram á trúnað án þess þó að geta í rauninni vísað til þeirra laga sem réttlættu slíkt.

Á hádegisverðarfundi í fjárln. í dag var það upplýst að forsrn. væri reiðubúið að gefa umbeðnar upplýsingar til fjárln. gegn því að farið yrði með slíkt sem trúnaðarmál.

Þá var að mati þess sem hér talar talið að þetta svar lægi fyrir og væri fullnægjandi. Svarið barst síðan ekki fyrr en nú mjög síðdegis og samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur hér gert grein fyrir, var það á engan hátt fullnægjandi eða svaraði þeim spurningum sem beðið var um né heldur var að mati hans, eins og hv. þm. hefur hér gert grein fyrir, neitt þar sem þyrfti sérstaks trúnaðar við.

Á fundi fjárln. nú í kvöld, þar sem þetta svar og þessi viðbrögð voru til umræðu, greindi undirritaður þess vegna frá því að á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu, að svarið væri engan veginn fullnægjandi né heldur væri þar neitt sérstakt sem að mati hv. þm., sem hafði þar orð fyrir og hafði séð efnið, krefðist sérstaks trúnaðar, hafnaði sá sem hér talar að taka við því bréfi án skilgreinds trúnaðar. Undirritaður lagði þar áherslu á að í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið í þinginu um málið væri eðlilegast, sjálfsagt og réttast að skriflegt svar kæmi frá forsrn., undanbragðalaust, til fjárln. og færi til þingsins sem nauðsynlegt gagn í umfjöllun um afgreiðslu fjáraukalaga.

Jafnframt lagði ég áherslu á að þingið sem slíkt starfaði eftir sérstökum og eigin lögum og þegar farið væri fram á trúnað gagnvart einstökum málum sem bærust yrði að skilgreina þar um hvers konar trúnað væri verið að biðja. Var verið að biðja um trúnað innan viðkomandi nefndar, fjárln.? Var verið að biðja um trúnað sem næði til fjárln. og til þess að fara með til umfjöllunar í þingflokkum, eða var verið að fara fram á trúnað sem fyrst og fremst næði til alþingismanna og þingsins, en ekki til almennings, þannig að málið yrði til umfjöllunar í þinginu? Þetta yrði í sjálfu sér allt að koma fram, um hvers konar trúnað væri farið fram á og þá jafnframt lagalegur rökstuðningur fyrir þeirri beiðni sem höfðað væri til varðandi þessa málsmeðferð.

Herra forseti. Í framhaldi af þeim fundi sem hv. fjárln. hélt nú í kvöld um þetta mál lét undirritaður bóka að hann teldi að þær upplýsingar ættu að koma fram sem beðið hefði verið um af hálfu forsrn. vegna einkavæðingarverkefna upp á 300 millj. kr., þær ættu að koma fyrir nefndina og ættu að koma fyrir þingið og að 3. umr. um fjáraukalögin ætti ekki að ljúka fyrr en þær upplýsingar lægju fyrir.

Ég tel afar mikilvægt, herra forseti, að með þetta mál verði farið með þessum fulla og rétta þingræðislega hætti.

Af þeim umræðum sem hér hafa síðan spunnist og vitna ég þar til hv. þm. og varaformanns fjárln. þar sem hann lét að því liggja að í sjálfu sér væru þarna engar leyndar upplýsingar, þetta gæti allt saman legið fyrir, þá er það einmitt árétting þess að þetta mál og allar upplýsingar sem beðið hefur verið um eigi að koma undanbragðalaust fyrir þingið þannig að það geti meðhöndlað það sem og önnur mál sem eru hér til meðferðar.

Herra forseti. Þetta vildi ég láta koma fram hér varðandi umræðu um þær 300 millj. sem beðið er um á fjáraukalögum til einkavæðingarverkefna á vegum forsrn. og hefur verið beðið um sundurliðun á eins og eðlilegt er.

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel að slíkar upplýsingar eigi að liggja fyrir og ég hef gert kröfu þar um áður en 3. umr. um fjáraukalög lýkur.

Þá hyggst ég einnig leggja fyrir þingið brtt. sem felur það í sér að þær 300 millj. sem farið er fram á vegna útboðs og einkavæðingarverkefna í fjáraukalögum verði felldar niður.

Herra forseti. Ég ítreka að þingið og nefndir þess eiga hinn eina og sanna þingræðisrétt til að fá upplýsingar, fjalla um mál og afgreiða þau.