Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:36:59 (2481)

2001-12-05 13:36:59# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins. Ég tel eðlilegt að forsvarsmenn þeirra málaflokka sem nú er verið að meðhöndla þessa dagana og sem ég er einmitt að fjalla um, séu viðstaddir.

Herra forseti. Ég harma það reyndar að hv. formaður fjárln. skuli ekki vera kominn í salinn. Engu að síður kveð ég mér hljóðs um störf þingsins og vinnuna í fjárln. Samkvæmt boðaðri dagskrá fjárln. í morgun átti kl. 10.15 að kynna tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á fjárlagafrv. til 3. umr., þar á meðal margboðaðar niðurskurðartillögur á útgjöldum ríkisins. Þá óskaði formaður nefndarinnar eftir frestun á fundinum til kl. 11 meðan meiri hlutinn færi yfir tillögrnar. Fundi var svo fram haldið um hálftólfleytið þar sem minni hlutinn var til kallaður og hafið að kynna honum tillögu ríkisstjórnarinnar. Formaður nefndarinnar greindi þá frá því að hann stefndi að því að afgreiða fjárlagafrv. úr nefnd í kvöld og við 2. umr. var boðað að veigamiklar breytingar yrðu gerðar á fjárlagafrv. við 3. umr. Þess vegna boðaði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að brtt. biðu 3. umr.

Samkvæmt verkáætlun sem starfað hefur verið eftir og skriflegri verkáætlun sem hluta af starfsáætlun þingsins átti ríkisstjórnin að hafa skilað tillögum sínum 30. nóvember sl. Þær eru sem sagt að koma í dag. Ég tel algerlega óviðunandi, herra forseti, að ætlast til þess að á þessum skamma tíma, einum sólarhring, undirbúi stjórnarandstaðan mál sín til 3. umr. á föstudaginn. Verkáætlun hefur hvort eð er öll farið úr skorðum og því ber þinginu að taka tillit til þess og breyta um. Ég fer fram á að 3. umr. fjárlaga verði ekki fyrr en eftir helgi.