Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:40:05 (2482)

2001-12-05 13:40:05# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er margt rétt í þeim ábendingum sem settar voru fram af hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þ.e. að mál eru seinna fram komin til fjárln. en við hefðum viljað. Til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður sem mörgum eru kunnar hér.

Ég vil líka láta það koma fram að minni hluti fjárln. hefur sýnt samstarfsvilja og elju í þessum störfum. Við leituðum samkomulags vegna þeirra aðstæðna sem hv. þm. lýsti hér áðan í þá veru að við frestuðum fundi klukkan hálfeitt í staðinn fyrir eitt eins og fyrirhugað var í verkáætlunum mínum og við mundum síðan hefja störf aftur ef við næðum samkomulagi við hæstv. forseta, þá sem eru með mál hér á dagskrá og ráðherra sem verða fyrir svörum. Ég leitaði eftir þessu samkomulagi og fékk þar góðar undirtektir þó svo ég viti að hv. þm. Jón Bjarnason gerði fyrirvara þar um. Ég heiti á fjárlaganefndarmenn að róa vel á bæði borð og klára þetta mál og er tilbúinn til þess að liðka til eftir því sem frekast er unnt og eins líka að fá starfslið þingsins, sem mjög er hart keyrt í þessu máli, til þess að vinna með okkur.