Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:41:46 (2483)

2001-12-05 13:41:46# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þær almennu athugasemdir sem hér hafa komið fram um gangverkið í kringum þinghaldið.

Mig langar að beina fyrirspurnum til oddvita þessarar ríkisstjórnar og láta á það reyna rétt áður en lokaafgreiðsla fjáraukalaga fer fram, hvort hægt sé að tosa út úr hæstv. ríkisstjórn þær sjálfsögðu upplýsingar er varða 300 millj. kr. sem greiddar hafa verið að stærstum hluta til sérfræðinga sem aðstoðað hafa ríkisvaldið við sölu ríkisfyrirtækja.

Hæstv. forsrh. hefur sárlega verið saknað hér á umliðnum dögum þegar þessar umræður hafa farið fram. Ég batt vonir við að hann yrði hér í dag og gæti upplýst um þetta mál, en það er hann ekki. Ég beini því orðum mínum til staðgengils hans, hæstv. utanrrh., og spyr hann á hverju það strandi að þessar upplýsingar til greiðslu lögaðila hérlendis og í útlöndum séu uppi á borðum. Því hefur verið haldið fram að um viðskiptaleyndarmál sé að ræða. Hins vegar eru fjölmörg fordæmi fyrir því á liðnum þingum, á liðnum árum og áratugum, að ámóta upplýsingar hafi verið veittar þannig að hér er um algerlega nýja stefnu að ræða, ný vinnubrögð að ræða.

Maður hlýtur að álykta sem svo, herra forseti, að hér séu undirmál á ferðinni, einhver leyndarmál sem þola ekki dagsins ljós, þar til annað hefur verið sannað. Ég vænti þess að staðgengill forsrh., hæstv. utanrrh., leysi úr þessum málum hér og leiði okkur í allan sannleika um raunveruleika hlutanna.