Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:16:06 (2502)

2001-12-05 14:16:06# 127. lþ. 43.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er verið að leggja til nauðsynlegar fjárveitingar til margra merkra stofnana og verka, til Ríkisútvarpsins, til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, til Hólaskóla, til Garðyrkjuskólans, til Skógræktar ríkisins, til Kirkjumálasjóðs, í kirkjugarðsgjöld, í sóknargjöld, til Jöfnunarsjóðs sókna, til Skálatúnsheimilisins, í fæðingarorlof, til Tryggingastofnunar ríkisins, til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Orkusjóðs.

Þetta eru allt góðar tillögur í sjálfu sér og nauðsynlegt er að þessir fjármunir komi þarna. Þeir mættu sjálfsagt vera meiri. En þetta er hluti af heildarafgreiðslunni hér á vegum meiri hlutans og Alþingis. Þó að þarna séu góð mál á ferðinni þá sitjum við hjá við þessa atkvæðagreiðslu en lýsum ánægju yfir mörgum þeirra liða þar sem bætt er um betur.